Með amfetamínduft í andlitinu

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast að pari við fjölbýlishús á Akureyri sl. sumar og fyrir að hafa sparkað í bifreiðar þar. Parið var að undirbúa ferð í sumarbústað og að ganga frá farangri í bifreið þegar atvikið átti sér stað. Maðurinn, sem var í bifreið á bílaplaninu, veittist að parinu, fyrst með orðbragði en síðan réðist hann á manninn, kom honum í jörðina og sparkaði í hann. Einnig reif hann í hár konunnar. Þá sparkaði hann í tvær bifreiðar sem voru á planinu. Lögreglan stöðvaði bifreið þar sem sá ákærði var farþegi og sagði lögregla að hann hafi verið með hvítar efnisleifar undir nefinu sem hann viðurkenndi að væru leifar af amfetamíni sem hann hafi verið að taka í nefið. Maðurinn var dæmdur í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi til þriggja ára og til að greiða parinu 12 þúsund krónur auk málskostnaðar.

Nýjast