Matthías Örn til Grindavíkur

Matthías Örn Friðriksson, leikmaður 1. deildar liðs Þórs í knattspyrnu, hefur ákveðið að söðla um og hefur gert tveggja ára samning við Grindavík sem leikur í úrvalsdeild.

,,Samningurinn minn hjá Þór var að renna út og mér fannst kominn tími á að taka næsta skref og sanna mig í úrvalsdeildinni," sagði Matthías Örn við vefsíðuna fotbolti.net í dag.

,,Valið stóð á milli Þróttar og Grindavíkur. Ég var kominn með tilboð frá Þrótti en ég valdi Grindavík. Ég vil meina að þar séu tveir bestu þjálfarar landsins, aðstaðan er frábær og allt í kringum þetta. Eftir að hafa æft þarna var erfitt að segja nei,” sagði Matthías ennfremur í spjalli við fotbolti.net.

Matthías er 23 ára gamall en hann hefur skorað sjö mörk í 81 leik með Þór síðan að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2006.

Nýjast