Matseðlar í Hrafnagilsskóla fá hæstu einkunn

Í úttekt Elínar Sigurborgar Harðardóttur á mötuneyti Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit kemur í ljós að næringargildið stenst allar kröfur og fær mötuneytið fyrstu einkunn. Í úttektinni voru skoðaðir hádegismatseðlar fyrir október og nóvember 2014, gerður af matráði Hrafnagilsskóla. Matseðlarnir náðu yfir níu vikur. Í samantekt kemur fram að Hrafnagilsskóli sé í góðum málum með sína matseðla og eru matseðlarnir þeir bestu sem næringarráðgjafi hefur séð hingað til.

Einnig kom fram að matseðlarnir væru vel fullgildir og í samræmi við ráðleggingar Embætti landlæknis um skólamáltíðir.

„Fjölbreytni í fæðuvali er mjög góð eins og áður hefur verið getið og nokkuð gott jafnvægi á milli þeirra fæðutegunda sem í boði eru í hverri máltíð, á milli daga og einnig yfir tímabilið. Verulega jákvætt að sjá að unnar keyptar matvörur eru afar sjaldan í boði og frekar sé lögð áhersla á að blandaður, samsettur unninn matur, kjöt eða fiskur, sé heimagerður. Það er atriði sem ég hef mikið hvatt matráð mötuneytis skólans til að gera í áður gerðum matseðlaúttektum. Hrafnagilsskóli er í góðum málum með sína matseðla og eru þetta þeir bestu sem ég hef séð hingað til,“ segir Elín m.a. í samantekt um matseðlana í Hrafnagilsskóla og greint er frá á heimasíðu skólans.

Eins og fram kom í síðasta blaði Vikudags eru Samtaka, samtök foreldrafélaga á Akureyri, óánægð með næringu barna í leikskólum og grunnskólum Akureyrar. Samtaka bar saman útreiknað næringargildi samkvæmt matseðlum við viðmiðunartölur sem Lýðheilsustöð gefur út og sá samanburður leiddi í ljós að leik- og grunnskólabörn eru í mörgum tilfellum ekki að fá þá næringu sem ætlast er til.

Fulltrúar hjá skóladeild Akureyrarbæjar hafa hins vegar vísað því á bug og segja næringuna standast allar kröfur.

Nýjast