Martin Varga kynnti fýsileika þess að framleiða lífrænan áburð úr úrgangi

Martin Varga með sýnishorn af áburði úr kinda-ull, kindahornum, þara og hestaskít.
Martin Varga með sýnishorn af áburði úr kinda-ull, kindahornum, þara og hestaskít.

STEM Húsavík, samfélagsmiðað fræðslunet, sem sett var á laggirnar í maí 2022 býður upp á mánaðarlega opna STEM hádegisfundi í Hraðinu, á Stéttinni (en STEM stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) fyrsta miðvikudag í mánuði. Markmiðið með kynningunum er að tengja saman fólk, stofnanir og fyrirtæki í kringum STEM greinar og vera vettvangur til nýskapandi lausna og nálgana. STEM Hádegin eru liður í aðgerðaáætlun STEM Húsavík til að varpa ljósi á og vekja athygli á STEM tengdri starfsemi í samfélaginu.

Huld

Huld Hafliðasóttir forstöðukona STEM-Húsavík segir umfjöllunarefnin geta verið allt frá rannsóknum og kennsluaðferðum tengdum STEM yfir í starfsemi stofnana og fyrirtækja sem vinna með STEM á einhvern hátt. „Hádegin hefjast á 1-2 stuttum gestakynningum og þeim lýkur með spjalli og rými fyrir spurningar og spekúlasjónir,“ segir Huld og bætir við að hádegin hafi hingað til verið vel sótt af fjölbreyttum hópi fólks. „Öll eru velkomin og mikilvægt að fólk viti að þetta er hugsað sem óformlegir fundir og jafnvel hægt að koma seint og fara snemma. Enginn aðgangseyrir og boðið er upp á kaffi og meðlæti.“ 

Huld segir kynningar í vetur hafa m.a. verið frá Náttúrustofu Norðausturlands sem kynnti rannsóknir sínar og áhersluverkefni, Ocean Missions kynnti borgaravísindi sín og áherslur sínar um að tengjast samfélaginu og efla umhverfisvitund, Youth for Arctic Nature kynnti nýtt app sem nýtist m.a. í umhverfisfræðslu og til að fræðast um náttúruna. Þá kynnti Fiskeldið Haukamýri áherslur sínar sem tengjast tækni og vísindum í starfsemi sinni og Martin Varga sagði frá hugmyndum um að nýta lífrænan úrgang sem áburð. „Martin hlaut nýverið styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra til þess að skoða möguleikana hér á svæðinu, en erlendis þekkist þessi aðferð og er vel nýtt,” útskýrir Huld.

Í Hádegishittingi í upphafi marsmánaðar sagði Martin Varga frá verkefni sínu um fýsileika þess að framleiða lífrænan áburð úr úrgangi sem annars er hent.

Fjölmargir þættir ýta undir fýsileika þess að notast við lífrænan áburð framleiddan á Íslandi í stað tilbúins/framleidds áburðar, svosem flutningskostnaður nú í kjölfar covid, sem og stríðsins í Úkraínu – en ekki síður en háværar kröfur út frá náttúruverndar- og heilsufarssjónarmiðum, en notkun á tilbúnum áburði hefur neikvæð áhrif til langs tíma á jarðveg, grunnvatn og sjó.
Þá eykst eftirspurn eftir lífrænum matvælum með hverju árinu.

STEM hádegi

STEM hádegin eru auglýst á Facebooksíðu STEM-Húsavík í kringum hver mánaðarmót.
„Þetta er frábær leið til að hitta fólk og á sama tíma fræðast um hvað er að gerast í STEM tengdri starfsemi á Húsavík og nágrenni,“ segir Huld að lokum.

Þá má geta þess að  STEM Húsavík heldur úti hlaðvarpsþáttum til að auka vitneskju um STEM í samfélaginu. Þættina má nálgast á hlaðvarpsveitunni Podbean eða heimasíðu STEM Húsavík.

Í þáttunum fær Huld Hafliðadóttir, forstöðukona STEM Húsavík, til sín gesti sem á einhvern hátt tengjast STEM (vísindi, tækni, verkfræði, stærðfræði) í samfélaginu, hvort heldur sem er í gegnum nám og kennslu, störf og rannsóknir eða á annan hátt. 

 


Athugasemdir

Nýjast