Martha Hermannsdóttir leikmaður KA/Þórs varð markadrottning Olís-deildar kvenna í handbolta en deildarkeppninni lauk í gærkvöld. Martha skoraði 138 mörk í 21 leik. KA/Þór tapaði gegn Stjörnunni á heimavelli í gær í lokaumferð deildarinnar, 27-21, þar sem Martha var markahæst í liði KA/Þórs með tíu mörk.
Martha, sem verður 36 ára á þessu ári, átti frábært tímabil með KA/Þór sem flestir spáðu falli úr deildinni. Norðankonur komu hins vegar mörgum á óvart með góðri spilamennsku og höfnuðu í fimmta sæti deildarinnar.