María fær styrk frá ÍSÍ

Afrekskvennasjóður Íslandsbanka og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands tilkynnti í dag hvaða sex afrekskonur hljóta styrk upp á hálfa milljón króna, en alls bárust sjóðnum 57 styrktarumsóknir. Sex hlutu styrki og þeirra á meðal er María Guðmundsdóttir frá Skíðafélagi Akureyrar.

María, sem er 18 ára, er í hópi bestu skíðamanna landsins. Í fyrra varð hún þrefaldur unglingameistari í sínum flokki og varð Íslandsmeistari fullorðinna í svigi. Sínum besta árangri á alþjóðavísu náði María í Geilo í nóvember sl. Þar hafnaði hún í 21. sæti af 140 keppendum. Á Skíðamóti Íslands 2011 sigraði María í samhliðasvigi.

Einnig hlutu styrki þær Arna Stefanía Guðmundsdóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR, Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Sundfélaginu Ægi, Gunnhildur Garðarsdóttir, skylmingakona úr Skylmingafélagi Reykjavíkur, Norma Dögg Róbertsdóttir, fimleikakona úr Gerplu og Perla Steingrímsdóttir, danskona úr Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar.

Markmið og tilgangur sjóðsins er að styðja við bakið á afrekskonum í íþróttum og gera þeim betur kleift að stunda sína íþrótt og ná árangri.

Nýjast