Margir hafa það verra en sauðfjárbændur

„Ég hef ekki kafað djúpt í samninginn en rennt yfir hann og líst bara vel á það sem þar er að finna," segir Þórarinn Pétursson, sauðfjárbóndi í Laufási við Eyjafjörð og formaður sauðfjárbænda í Eyjafirði, um nýgerðan samning sauðfjárbænda og ríkisins.

Þórarinn segist ekkert hafa við samninginn að athuga, en bændur verði þó að gæta sín þegar skylda um útflutning fellur niður árið 2009, að innanlandsmarkaðurinn yfirfyllist þá ekki af lambakjöti. „Það er reyndar svo margt sem spilar inn í framhaldið eins og það hversu mikil framleiðslan verður, hversu margir af eldri bændunum hætta og svo framvegis. Við bændur getum verið sáttir við þennan samning, þarna er örlítil tekjuaukning og miðað við allt og allt er þetta ásættanlegt. Beingreiðslur þær sem um er að ræða skila sér aftur til baka, bæði til afurðastöðvanna og til almennings. Ég er ekki viss um að kjötiðnaðarfyrirtækin, sem vinna geysilega mikið úr lambakjöti, væru burðug ef bændur fengju ekki þessa ríkisstyrki," segir Þórarinn.

Hann segist ekki skilja þetta sífellda tal um sauðfjárbændur sem eintóma fátæklinga. „Mér leiðist þetta fátækratal í sambandi við sauðfjárbændur og ég er á þeirri skoðun að það séu margir hópar í þjóðfélaginu sem hafi það verra en bændur. Við eigum að halda áfram að framleiða góða, holla og hreina vöru," sagði Þórarinn.

Nýjast