Margir hafa sögu að segja
Fjöldi manns hafa haft samband við mig eftir að ég skrifaði um uppákomu dóttur minnar við eigendur Labowski Bar í sumar. Mér er þakkað fyrir að opna umræðuna svo og dóttur minni að stíga fram og þora því sem hún gerði. Við þökkum það að sjálfsögðu. En þar með er ekki sagan sögð. Halda þarf baráttunni áfram. Það má ekki stoppa hér. Ungmenni verða að stíga fram og segja frá, líka hér á Akureyri þó að kunningsskapur sé fyrir hendi.
Móðir stúlku hafði sambandi við mig og sagði mér frá miður skemmtilegu atviki. Með þeirra leyfi segi ég frá. Fyrir nokkru vann dóttir mín í vaktavinnu á veitingastað hér í bæ (Akureyri), sagði hún. Þegar lítið var að gera var hún send heim þrátt fyrir að hafa mætt til vinnu á skipulagða vakt. Að sjálfsögðu var sá tími ekki greiddur. Vinnuveitandi dóttur hennar óskaði eftir að stelpan skrifaði undir uppsagnarbréf þegar hann vissi að hún væri barnshafandi. Dagsetning uppsagnar átti að vera fyrir þann tíma sem hann vissi um ástand hennar. Með þessu snilldarráði kæmist hún á atvinnuleysisbætur og hann þyrfti ekki að borga neitt, eins og hann orðaði það (minnir óneitanlega á málið sem Framsýn rekur nú gegn Visi vegna fiskvinnslufólks). Unga stúlkan var ekki sátt, fer til forkólfa verkalýðsins og viti menn, svarið sem hún fékk var ,,við getum ekkert gert, svona er þetta í veitingabransanum. Það var og! Ég undrast ekki að einstaklingur sem mætt hefur svona viðmóti hafi misst trú á verkalýðsfélagi sínu. Staðurinn er ekki nafngreindur þar sem eigendur hans gætu hafa lagað launamálin frá því þetta gerist og þar til nú.
Formaður Einingar/Iðju skrifaði grein s.l. föstudag sem varpar ljósi á málaflokkinn . Það að ég skuli skrifa um liðin dæmi er til að sýna fram á að verkalýðshreyfingin er meðvitaðri um málaflokkinn nú en áður. Launamenn fagna því. Það að nóg sé að gera á skrifstofum verkalýðsfélaga um málaflokkinn sýnir vitundarvakningu meðal almennings. Á því þurfum við að halda.
Launþegar sem telja á sér brotið eiga að leita réttar síns, því eins og Björn Snæbjörnsson segir, tekið er á öllum málum þar sem brot á sér stað. Undirrituð skoraði á Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur þingmann að skoða málið á Alþingi. Bjarkey tók áskoruninni og vinna er nú þegar hafin. Mér skilst að helsta hindrunin sé úrræðaleysi verkalýðsfélaganna til að kanna laun annarra en þess sem kvartar, þess vegna þrífst þessi skítur. Þegar búið er að moka einum starfsmanninum út má gera slíkt hið sama við næsta sem gerir athugasemd. Gera þarf bragabót, þannig að fólk upplifi ekki ógnun ef það gerir athugasemd við launagreiðslur sínar. Nóg á að vera að einn launþegi kvarti og sú kvörtun kalli á launakönnun allra starfsmanna. Kannski þarf lagabreytingu til og ef það kemur í ljós vona ég að þingmenn, burtséð frá flokkum, taki höndum saman og taki á vandanum. Þingmenn, útvegið verkalýðsfélögunum verkfæri til að sinna málaflokknum betur en nú er gert.
Helga Dögg Sverrisdóttir