Margir gengu gegn umferðarslysum

Töluverður fjöldi fólks, með heilbrigðisstarfsfólk og slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn í broddi fylkingar, tók þátt í fjöldagöngu gegn umferðarslysum á Akureyri nú seinni partinn. Einnig var gengið í Reykjavík og á Selfossi í sama tilgangi. Á Akureyri var gengið frá þyrlupalli við FSA, niður Þórunnarstræti, suður Glerárgötu og inn á Ráðhústorg. Í lok göngu var stutt athöfn til minningar þeim sem látið hafa lífið í umferðinni og til að sýna fórnarlömbum samstöðu. Á Ráðhústorgi fór Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur á FSA með bæn. Þá var 31 svartri blöðru sleppt til minningar um þá sem létust í umferðarslysum á síðasta ári og fjölmörgum rauðum blöðrum var sleppt vegna þeirra sem slasast hafa alvarlega í umferðinni.

Nýjast