Mannorðsmorðingjar Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi
Bókin Mannorðsmorðingjar Faglegar og persónulegar pælingar um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi eftir Björn Þorláksson er væntanleg hjá Bókaútgáfunni Sölku um miðja næstu viku. Hvert er gjald gagnrýninnar blaðamennsku? Ef fjölmiðlar þegja yfir því sem miður fer, þora ekki annað meðal annars vegna þess að þeir vilja ekki lenda upp á kant við umhverfi sitt hvaða áhrif hefur þá slík þöggun til langframa fyrir samfélag, af hvaða stærð sem er?
Björn Þorláksson hefur undanfarna áratugi starfað sem blaðamaður, fréttastjóri, ritstjóri, útvarpsmaður, sjónvarpsmaður og þáttastjórnandi. Hann hefur oft lent í hringiðu stóratburða og stundum þurft að taka afleiðingum óvægins fréttaflutnings, enda þekktur fyrir snöfurmannlega framgöngu í fjölmiðlum. Hér er hvorki á ferðinni venjuleg blaðamennskubók né dæmigert fræðirit, heldur umfjöllun um hlutverk og stöðu íslenskra fjölmiðla með sjálfsævisögulegu ívafi. Björn hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum, og útkoman er ögrandi lesning, skemmtileg og upplýsandi, segir í tilkynningu.
Í bókinni sem hér liggur fyrir koma saman margir þræðir sem í heild leiða lesandann að betri skilningi á félagslegu og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðlanna ásamt því að veita innsýn í sínálægan tilvistarvanda hins góða blaðamanns. -Þorbjörn Broddason prófessor