Menningarhátíðin Mannfólkið breytist í slím fer fram 17. - 19. júlí á Akureyri en hátíðin er kennd við listakollektífið MBS sem hana heldur og hefur gert árlega síðan 2018. MBS hefur verið starfandi á Akureyri frá árinu 2010 og á þeim tíma staðið fyrir reglulegu viðburðahaldi auk tónlistarútgáfu sem nú telur 20 plötur. Helsta markmið MBS er að auðga menningarlífið norðan heiða á forsendum svæðisins með áherslu á jaðarkúltúr og listafólk utan meginstrauma.
Mannfólkið breytist í slím er tileinkuð jaðar- og grasrótarmenningu þar sem sérstakur fókus er á listafólk úr héraði. Hátíðin er fyrst og fremst helguð tónlist en hefð hefur skapast fyrir gjörningalist í bland við tónlistaratriði auk atriða sem dansa mitt á milli listformanna tveggja.
Úr því að hátíðin fer iðulega fram í hráum iðnaðarrýmum hefur hún skapað sér verðugt orðspor í menningarlandslagi Akureyrar fyrir afar nýstárlega nálgun á viðburðahald auk þess að fara aldrei fram á sama stað. Þannig hefur listakollektífið MBS öðlast mikla reynslu í að umbreyta óhefðbundnum rýmum í frambærilega tónleikastaði á mettíma. Eitt sérkenna Mannfólkið breytist í slím eru aukin heldur innsetningar sem finna má á tónleikasvæði þar sem mikið púður er lagt í umgjörð og upplifun hátíðargesta höfð í forgangi. Sú nálgun að taka yfir iðnaðarrými krefst mikillar vinnu við framleiðslu og uppsetningu auk þess sem vinnan er mannaflsfrek en stuðlar hinsvegar að einstökum hughrifum gesta og stemningu sem er sér á báti meðal menningarviðburða á Norðurlandi.
Að jafnaði er miðað við að fjölbreytni atriða Mannfólkið breytist í slím sé sem mest innan þess víða mengis sem jaðarkúltúr er. Einnig skulu tveir þriðju hlutar atriða á viðburðum MBS vera úr héraði, kynjahlutföll þátttakenda skulu vera sem jöfnust og allt listafólk fær greitt fyrir framkomu sína. Aldrei hefur verið krafist aðgangseyris að Mannfólkið breytist í slím en verkefnið er rekið fyrst og fremst á sjálfboðavinnu, styrkjum og frjálsum framlögum gesta.
Sérstaða hátíðarinnar á landsvísu er gríðarleg enda engin önnur menningarhátíð sem haldin er á landsbyggðinni í jafn langri dagskrá þar sem þorri atriða er úr nærumhverfinu. Oftast þegar tónlistarhátíðir eru haldnar á landsbyggðinni er verið að flytja listafólk úr höfuðborginni yfir á strjálbýlli svæði. Markmið MBS með Mannfólkið breytist í slím er að snúa þessu við og bjóða framúrskarandi listafólki annarsstaðar að í bland við fjölbreyttan hóp norðlensks listafólks sem svo mætast í suðupotti grasrótarinnar þar sem allir gestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi auk þess að uppgötva eitthvað nýtt og spennandi.
Ætlunin er að skapa sterka hefð fyrir öflugri menningarhátíð utan meginstrauma á Akureyri sem efla megi listalíf svæðisins til frambúðar og skapa þannig tækifæri fyrir ungt listafólk til að koma fram í bland við reyndara. Markmið Mannfólkið breytist í slím er ekki að stækka ár frá ári heldur að auka gæði hátíðarinnar eftir því sem fram líður og fóstra senu í höfuðstað Norðurlands.
Engin miðasala er á Mannfólkið breytist í slím heldur er gestum frjálst að styrkja MBS eftir hentisemi.