Málþing um skjátíma barna og unglinga

Börn alast í dag upp í miklu návígi við snjalltæki hvers konar. Foreldrum reynist oft erfitt að setj…
Börn alast í dag upp í miklu návígi við snjalltæki hvers konar. Foreldrum reynist oft erfitt að setja börnum sínum skorður um skjátíma Mynd: edudemic.com

Á morgun miðvikudaginn 9. mars verður haldið í Menningarhúsinu Hofi, málþing um skjátíma barna og unglinga á Akureyri. Í tilkynningu frá Samtaka samtökum foreldrafélaga á Akureyri segir:

“Markmiðið með þinginu er að móta viðmið um skjátíma barna og unglinga á Akureyri og þar horft til góðs árangurs af útivistarreglum fyrir sama aldurshóp. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi viðmið geta gagnast jafnt börnum, unglingum sem og fullorðnum, því flest þekkjum við þá tilfinningu að við eyðum óhóflegum tíma við skjá. Dagskráin byggir á kynningu á viðfangsefninu og síðan umræðu þátttakenda í hópum. Gert er ráð fyrir að málþingið leggi fram sameiginlega tillögu að viðmiðunum um skjátíma sem fara í kynningu og síðan til loka úrvinnslu hjá Samtaka – samtökum foreldrafélaga á Akureyri og Samfélags- og mannréttindaráði, sem standa saman að útgáfu þeirra og kynningu.“

Hægt er að skrá sig á facebooksíðu verkefnisins: https://www.facebook.com/vidmid/ en þar má einnig finna eftirfarandi dagskrá:

Spurningar sem ræddar verða á málþinginu

Fyrri umferð: Af hverju er mikilvægt að hafa sameiginleg viðmið um hæfilegan skjátíma barna og unglinga í samfélagi okkar?

Seinni umferð: Hvernig og hvaða viðmið um skjátíma telur þú vera hæfilegan fyrir börn á (viðkomandi aldri)?

Viðfangsefninu er skipt upp í hópa eftir 5 mismunandi aldursstigum:

Leikskólaaldur
Grunnskólaaldur 1. - 4. bekkur
Grunnskólaaldur 5. - 7. bekkur
Grunnskólaaldur 8. - 10. bekkur
16 til 18 ára unglingar

Miðað er við ólögráða aldur. Gengið er út frá því að fullorðnir sýni gott fordæmi. EPE

Nýjast