„Það er fín stemmning í hópnum hjá okkur. Við erum búnir að fara yfir leikinn á þriðjudaginn og við látum þetta tap ekkert á okkur fá. Það er fullt eftir ennþá og við ætlum að halda áfram á fullum krafti,” segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar. Hann játar því að það hafi verið nokkuð erfitt að rífa menn upp eftir svekkjandi tap í fyrsta leiknum á heimavelli.
„Það var ekkert auðvelt að rífa menn upp en við sáum það að við vorum ekki að spila vel og við eigum heilmikið inni en náðum samt að hanga í þeim. Með því sýndum við að við eigum fullt erindi í þessa rimmu. Við þurfum hins vegar að fá sóknarleikinn betur í gang í kvöld.”
Mikið fjölmiðlafár hefur verið í kringum rauða spjaldið sem Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður Akureyrar fékk á lokasekúndum í leiknum á þriðjudaginn, þegar hann togaði Örn Inga Bjarkarson niður. Eru skiptar skoðanir um það hvort Guðmundur hefði átt að fá leikbann en hann verður með í kvöld. Atli segir allt þetta fár ekki trufla þá fyrir leikinn í kvöld.
„Alls ekki. Þetta er bara hluti af þessu og við leiðum þetta algjörlega framhjá okkur,” segir hann.