Mæta með 50 ára starfsreynslu á N4
Margrét Blöndal, hin góðkunna dagskrárgerðarkona, og Sighvatur Jónsson, fjölmiðlamaður frá Vestmannaeyjum, munu stýra þættinum Að sunnan sem sýndir verða á N4 á miðvikudagskvöldum í vetur. Margrét og Sighvatur hafa gríðarlega mikla reynslu af fjölmiðlum, hvorki meira né minna en 50 ár samtals.
Margrét Blöndal hefur unnið við fjölmiðla í 31 ár, bæði í útvarpi, sjónvarpi og við blaðaskrif. Undanfarin ár hefur hún stýrt þættinum Bergsson og Blöndal með Felix Bergssyni á Rás2. Ég er full tilhlökkunar. Ég hef fylgst með N4 frá upphafi og það hefur glatt mig mjög að sjá stöðina vaxa og dafna. Það verður gaman að vinna í skapandi og skemmtilegu umhverfi og þeytast með Hvata um Suðurland þvert og endilangt. Ég er full tilhlökkunar enda erum við strax farin að fá jákvæð og gleðileg viðbrögð frá Sunnlendingum," segir Margrét Blöndal.
Sighvatur hefur unnið við fjölmiðla í 19 ár, jafnt útvarp sem sjónvarp. Hann er menntaður margmiðlunarsérfræðingur og tölvunarfræðingur frá Danmörku. Sighvatur hefur rekið framleiðslufélagið SIGVA media undanfarin tíu ár sem hefur framleitt heimildarmyndir og sjónvarpsefni fyrir RÚV og 365 miðla. Sighvatur hefur verið fréttaritari RÚV á Suðurlandi ásamt því sem hann er umsjónarmaður Vinsældalista Rásar 2. Það er mjög spennandi að taka þátt í þessu framleiðsluverkefni með N4 á Suðurlandi. Margréti þekki ég vel vegna starfa okkar á Rás 2 og hún er einn jákvæðasti og brosmildasti samstarfsmaður sem ég hef kynnst. Við hlökkum til að taka hús á Sunnlendingum á næstunni og bæta fjórðungnum við ágæta landsbyggðardagskrá N4," segir Sighvatur.
Þættirnir Að sunnan verða sýndir á miðvikudagskvöldum kl. 18:30 og endursýndir á klukkustunda fresti í sólarhring. Fjallað verður um allt milli himins og jarðar á svæðinu frá Hveragerði til Hafnar í Hornafirði.
Það er hreint út sagt algjör himnasending að fá svona hæfileikaríkt og yndislegt fólk með samtals hálfrar aldar reynslu úr bransanum til liðs við okkur. Við á N4 höfum mikinn áhuga á því að færa út kvíarnar og ég er spennt fyrir því að Suðurlandið sé með þessu að bætast við. Svo vona ég auðvitað að fleiri svæði og enn fjölbreyttara efni bætist við í flóruna þegar fram líða stundir, segir Hilda Jana Gísladóttir dagskrárstjóri N4.