Mælst til að Akureyrarbær skipti sandinum út fyrir salt

Akureyrarbær notar að mestu sand til hálkuvarna með um 5% saltinnihaldi en Heilbrigiðiseftirlitið mæ…
Akureyrarbær notar að mestu sand til hálkuvarna með um 5% saltinnihaldi en Heilbrigiðiseftirlitið mælist til að skipta sandinum út fyrir salt.

Svifryksvandi í Akureyrarbæ er lýðheilsuvandamál sem kallar á ákveðnar úrbætur að hálfu Akureyrarbæjar og Vegagerðar ríkisins. Þetta kemur fram í bókun frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands. 

Heilbrigðisnefnd mælist til þess að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna á Akureyri veturinn 2019 til 2020 og meti árangur af þessari breytingu á verklagi m.t.t. svifryks í Akureyrarbæ að loknum vetri. Jafnframt verði gert átak í því að efla þrif (sópun og smúlun) á götum bæjarins og að notaður verði sjór og eftir atvikum magnesíumklóríð til rykbindingar á götum bæjarins. Gert verði átak í því að fyrirbyggja að óhreinindi berist á götur bæjarins með vörubílum og vinnuvélum af byggingar- og athafnasvæðum.

Þá er minnt á mikilvægi þess að koma á framfæri fræðslu og upplýsingu til bæjarbúa um mikilvægi þess að velja naglalaus vetrardekk frekar en nagladekk m.t.t. svifryks og lýðheilsu. Að lokum er gerð tillaga um að Akureyrarbær og Akureyrarhöfn fjárfesti í færanlegum svifryksmæli sem verði notaður gagngert til þess að fylgjast með svifryki víðsvegar í bænum og einnig vegna mengunar frá skemmtiferðaskipum í Akureyrarhöfn.

Óhjákvæmilegt að bregðast við

Akureyrarbær notar að mestu sand til hálkuvarna með um 5% saltinnihaldi. Þótt sandurinn sé þveginn, þá molnar hann og skapar svifryk. Ekki síst eru nagladekkin stórvirk að brjóta niður sandinn og malbikið sjálft.

Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir að bæjaryfirvöld muni taka tillögu Heilbrigðiseftirlitsins um breytingu á hálkuvörnum til greina.

„Hvort sem því verður komið við núna í vetur eða næsta vetur, þá held ég að það sé óhjákvæmilegt að við gerum einhverja tilraun með þetta,“ segir Andri. Í tvígang á skömmum tíma hefur komið tilkynning frá Akureyrarbæ þar sem varað var við svifryksmengun þar sem hún hefur farið yfir heilsuverndarmörk.

Andri segir að svifrykið fari yfir lýðheilsumörk nokkrum sinnum á vetri og fólk sé sammála um að það sé ekki viðunandi.

„Við vitum ekki hvort þetta hafi beinlínis haft skaðleg áhrif á tiltekna einstaklinga, en það er hins vegar ekki annað verjandi en að fara eftir þessum ráðleggingum sérfræðinga. Ég mun leggja til að við ræðum þetta og við prófum að nota salt á afmörkuðum svæðum hið minnsta,“ segir Andri.

Óvíst sé hvort nægur fyrirvari sé til að hægt verði að skipta sandinum alfarið út í vetur. 


Athugasemdir

Nýjast