Lýsir vonbrigðum með breytingar á rekstri svæðisstöðva RÚV

Stjórn Eyþings lýsir áhyggjum og vonbrigðum með þær breytingar sem ákveðnar voru á rekstri svæðisstöðva Ríkisútvarpsins (RÚV). Svæðisstöðvarnar s.s. Svæðisútvarp Norðurlands á Akureyri, hafa gegnt mikilvægu hlutverki við fréttaflutning og dagskrárgerð á þjónustusvæðum sínum. Eðlilegt er að RÚV sinni þeirri þjónustu sem hinn frjálsi markaður getur ekki eða vill ekki sinna.

Stjórn Eyþings telur ástæðu til að minna stjórnendur Ríkisútvarpsins á að þeir stýra útvarpi allra landsmanna og sem landsmenn greiða skatt til hvar sem þeir búa. Fram hefur komið að rekstur svæðisstöðvanna allra hefur kostað innan við 100 milljónir króna sem er mjög lítill hluti af rekstri RÚV. Þá hafa auglýsingatekjur svæðisstöðvanna verið umtalsverðar. Uppi eru hugmyndir um flutning starfsstöðvarinnar á Akureyri í annað húsnæði. Draga má í efa ávinning af þeim flutningi sem hlýtur að verða mjög kostnaðarsamur og mun skerða möguleika á að blása aftur til sóknar þegar betur fer að ára á ný í þjóðfélaginu. Stjórn Eyþings óskar eftir fundi á Akureyri með stjórn Ríkisútvarpsins ohf. um framtíðarskipulag svæðisfrétta og aðra þjónustu stofnunarinnar við landshlutann.

Nýjast