Lýsa yfir miklum vonbrigðum með samgönguáætlun

Akureyrarflugvöllur
Akureyrarflugvöllur

Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að í fimm ára samgönguáætlun sé ekki sé ekki gert ráð fyrir fjármögnun uppbyggingar Akureyrarflugvallar. Í bókun bæjarstjórnar segir að það samræmist hvorki byggðastefnu stjórnvalda né umræðu um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið.

„Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrar ríkisstjórnina til að ljúka við löngu tímabæra eigendastefnu Isavia, ekki síðar en um áramótin 2018/2019,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir í samtali við Vikudag að Akureyrarbær hafi frest til 26. október til að koma með athugasemdir við samgönguáætlunina.

„Við munum þrýsta á að fá fjármagn til uppbyggingar á Akureyrarflugvelli. Okkur finnst nýverandi áætlun ekki samræmast þeim áætlunum ríkisins að opna fleiri gáttir inn í landið. Við munum halda áfram að berjast fyrir því að koma þessu máli áfram,“ segir Guðmundur Baldvin.

Málefnið verður einnig tekið fyrir á bæjarráðsfundi á morgun, fimmtudag.  

Nýjast