Lýsa áhyggjum af aðkomu barna að Lundarskóla og Glerárskóla

Á fundi skipulagsnefndar Akureyrar í vikunni var tekið fyrir erndi frá Hermanni Karlssyni f.h. Hverfisnefndar Lunda- og Gerðahverfis, þar sem lýst er áhyggjum skólayfirvalda í Lundarskóla og Glerárskóla af aðkomu barna að skólunum yfir Þingvallastræti og Borgarbraut.  

Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að þegar sé í gangi á framkvæmdadeild vinna við tillögur um úrbætur á Þingvallastræti. Þær tillögur miði að því að auka lýsingu við gangbrautir við spennistöð NO og við Hrísalund. Einnig er gert ráð fyrir auknum merkingum sem vara enn frekar við gangbrautarljósum á kaflanum. Nú þegar hafa verið unnar frumtillögur á breytingum á Þingvallastræti til að auka enn frekar öryggi gangandi vegfaranda en á þessu stigi er ekki vitað hvenær þær verða framkvæmdar. Þverun við gatnamót Dalsbrautar og Borgarbrautar og hugsanlegar breytingar þar, þarf að vinna í samráði við Vegagerðina. Bent er á að nú þegar eru undirgöng undir Borgarbraut þar sem skólabörn geti farið um á leið til skóla.

Skipulagsnefnd samþykkti að fela skipulagsstjóra að skoða í samráði við Vegagerðina og framkvæmdadeild hugsanlegar úrbætur á gangbrautartengingum yfir Borgarbraut til norðurs.

Nýjast