Hægt var að kaupa fjölbreytt handverk sem er afrakstur vinnu þeirra sem sækja dagþjónustu og félagsstarf á Hlíð. Núverandi og fyrrverandi starfsfólk, ásamt aðilum frá ýmsum fyrirtækjum á Akureyri og nágrenni seldi þar einnig varning sinn. Var alls konar varningur til sölu sem ekki er hægt að telja allan upp en sem dæmi má nefna: Snyrtivörur, föndurvörur, skartgripi, dömu- og herrafatnað, ungbarnaföt, dúka, skó, mannbrodda, fjallagrös, marmelaði og handgert jólaskraut. Einnig var hægt að setjast og hafa það huggulegt á kaffihúsi, kaupa kaffi og jólasmákökur á vægu verði.
Markaðsdagurinn er árlegur viðburður sem starfsfólk iðju- og félagsstarfs á Hlíð ber hitann og þungan af en aðrir leggja einnig hönd á plóginn við undirbúninginn. Lukkupakkarnir eru orðnir fastur liður á markaðsdeginum. Fjöldi fyrirtækja í bænum hafa styrkt félagsstarfið með góðum gjöfum sem starfsfólk og íbúar pakka inn og númera.Fyrir nokkra hundraðkalla er hægt að kaupa númer sem síðan er parað saman við pakka með sama númeri. Svo er spennandi að sjá innihaldið! Magga Kristín Björnsdóttir, söngfugl og lukkupakkastjórnandi er starfsmaður í iðju- og félagsstarfi á Hlíð. Hún sagði að þetta árið hefðu verið útbúnir tæplega 300 lukkupakkar. Þeir seldust upp á um það bil 45 mínútum. Dæmi eru um að fólk komi og kaupi jólagjafir á þennan hátt. Markaðsdagur Hlíðar er án vafa búinn að festa sig í sessi sem fastur viðburður í aðdraganda jóla á Akureyri.
-Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir