Lommílæk

Ásgeir Ólafsson.
Ásgeir Ólafsson.

Áskorandapenninn er nýr liður í blaðinu þar sem fólk skrifar um það sem því hugnast. Ásgeir Ólafsson ríður og vaðið og skorar á næsta.

“Pabbi mig langar að heyra Lommílæk” (Love me like you do; Ellie Goulding) er í algjöru uppáhaldi þessa dagana. En það er annað lag sem sækir fast að.  One hitt wonderið  Susanna með hljómsveitinni The Art Company. Það er vegna þess að hún hefur áttað sig á að það er til dægurlag  sem sungið er til vinkonu hennar.

“Súsanna langar að knúsana” raular hún í rím – gír á leið í leikskólann með lagið undir meðan foreldrar þurrka stýrur næturinnar úr augunum eftir næturdjamm þess sjö mánaða og skella svo eilítið uppúr.   Hún á það til að ríma það sem hún heyrir.  Þannig hefur hún kannski lært öll þessi orð sem hún kann.

Að eignast veikt barn er erfitt.  Alexandra á sína erfiðu daga. En það eru dagarnir þegar hún syngur til vinkonu sinnar í gegnum eldgamalt meðalgott 80s lag og rímar svo allt í klessu í kjölfarið sem hjálpar manni að leiða erfiðu dagana hjá sér og einbeita sér að þeim góðu.   Þeir góðu eru einmitt fleiri núna en þeir slæmu. Það er einnig vegna atgervis hennar.

Hún tekur hóstakastið sitt og gubbar svo tárin leka. Mamma og pabbi þurfa að vera sterk. Mjög erfitt.  Hóstinn er mikill. Um leið og gubbið hættir og hún nær röddinni í gang aftur byrjar rímið. Oft yfir einhverju sem við segjum þegar við vorkennum henni mest.  Æji elsku ástin mín. “Ástin, sástin, mástin Hehe”. Svo heldur hún áfram,  “Gubbu ,lubbu, subbu, dubba”.  

Þá eru allir byrjaðir að brosa aftur. Enda ekkert annað hægt. Nú verður hún þriggja ára í mars. Við höfum  setið yfir henni síðan hún fæddist. Því segjum við að það séu forréttindi að eignast barn sem lifir af alvarleg veikindi. Framþróunin sem á sér stað innra með manni í ferlinu er meiri en ykkur nokkurn tíma grunar.

Það er svo auðvelt að missa sig í amstri dagsins, þegar mikið er að gera í vinnu og öðru sem við tökum okkur fyrir hendur. Að henda svo börnunum í pössun til að klára að gera allt sem við ætluðum að gera.

Auðvitað á aðalatriðið að vera það að eyða sem mestum tíma með börnunum sínum. Okkur langaði að gefa Alexöndru systkini. Því eignuðumst við tveimur árum síðar, eða fyrir sjö mánuðum lítinn dreng.

Lítinn bróðir sem hún knúsar daginn út og inn. Fólk hélt að við værum eitthvað rugluð að leggja út í það að eignast annað barn ofaní veikindi hennar. En við höfum blessunarlega lært af öllu þessu álagi hvað það er sem skiptir máli. Það er allt sem umlykur okkur. Fólkið okkar. Annað skiptir ekki máli.

Við eigum diska og við eigum glös. Við eigum allt á heimilið sem við þurfum til að lifa frábæran dag með börnunum okkar.  Við þurfum því ekki nýtt stell, nýtt sett af göfflum og hnífum eða glösum til að fylla upp í efnishyggjulegt tómarúm. Það er ekki pláss fyrir slíkt þegar við eyðum tíma með fólkinu okkar.

Þegar ég tala til fólks með slíka ræðu í dag þykir mér skrítið að sitja undir henni. Áður en Alexandra fæddist langaði mig í dýran bíl.  Mig langaði í dýran leðurjakka, dýr jakkaföt og dýr úr. Í dag langar mig að upplifa. Við upplifum ekkert í gegnum það að eiga hluti. Og það merkilega er að börnin okkar virðast ekki gera það heldur. Þeim þykir ekki jafn gaman að sitja að leik við dótið sitt og vilja fremur hanga og gera eitthvað með mömmu og pabba. Þau langar ekki í dót.

Þau langar að gera eitthvað skemmtilegt með okkur. Að leika með mömmu og pabba með sama dótið. Aftur og aftur. Þurfa því ekki nýtt dót. Ef barn rífur dót af Alexöndru í leikskólanum, þá er henni nokk sama. Hún finnur sér nýtt. Allt þar til hún fer að gera það sem henni þykir skemmtilegast. Að spjalla við leikskólastarfsfólkið um daginn og veginn. Það skilur nefninlega hvað hún segir.

Ég sé fyrir mér litla stelpu í appelsínugulum náttgalla með stóru gulu ísaumuðu A-i á bringunni sem stendur fyrir Alega Balega. (rímið hennar) Í allt of litlum rauðum sokkum sem bróðir hennar á með sérsaumaðan bakpoka fyrir öndunarvélina sína á bakinu. Hún heimsækir lítil börn og fullorðið fólk þegar þau leggjast til hvílu eftir erfiðan dag og þungar hugsanir þeirra taka yfir. Þar situr hún og er til staðar fyrir þau ef þeim vantar vinaöxl eða líður illa og vilja spjalla.  Já, eða ríma.

Það er hennar ofurhetjuhlutverk séð frá hlið föður. Það er ekki sjaldan sem hún hefur farið í gallann sinn þegar hún skynjar að pabbi þurfi á allri þeirri ást sem alheimurinn kann að bjóða upp í stanslausri baráttu í hörðum heimi aðstandanda langveiks barns. En eini munirinn er að pabbi þarf ekki ást frá öllum heiminum. Bara sínu fólki.

Hann þarf ekkert annað. Það er frelsi. Ef verð frelsis er ekki dýrara en það að vefja sig fjölskyldu sinni, þá er það fengið billegt. Fyrir mér er það eina sem skiptir máli. Það er ástæðan fyrir viðurvist minni hér í dag. Ekkert annað. Það er ástæða þess að ég sit og skrifa þetta.  Af því ég er umlukin henni á hverjum degi með fólkinu mínu með alls kyns rími og gleði.

Góðar stundir, Ásgeir Ólafsson Lie. Fulltime pabbi.

Ég skora á Arnar Grant að skrifa pistil í næsta blað.

 


Athugasemdir

Nýjast