Loka deild á Grænuvöllum á Húsavík vegna hugsanlegs smits

Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd/epe
Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd/epe

Fréttin var uppfærð kl: 12:21

Hugsanlega er komið upp Covid-19 smit í Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík. Einni deild hefur verið lokað þar til niðurstöður berast úr sýnatöku sem barn á deildinn fer í í dag. Rúv greindi frá þessu en fólk sem var gestkomandi á heimili barnsins í síðustu viku greindist með veiruna um helgina.

Jón Höskuldsson, fræðslufulltrúi á Húsavík, segir í samtali við fréttastofu Rúv að rúmlega 10 börn séu heima í dag til öryggis. „Við vildum ekki taka neina sénsa og lokuðum þessari deild í dag á meðan viðkomandi barn bíður eftir niðurstöðu úr skimun,“ segir Jón í samtali við Rúv.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík voru þeir aðilar sem greindust gestkomandi á Húsavík fyrir helgi. Haft var samband við smitrakningarteymi sem er búið að reikja smitið. "Það er búið að girða fyrir þetta og við teljum að mesta hættan sé liðin hjá en það skýist betur þegar niðurstöður fást úr sýnatökum í dag," sagði lögregluþjónn á vakt. En þeir einstaklingar sem voru í návígi við fólkið sem greindist hefur verið sent í sýnatöku.

Uppfært kl 20:30:

Sýnin reyndust neikvæð og leikskóladeildin opnar aftur á morgun.


Nýjast