Lögreglan á Akureyri vekur athygli á því á Facebook síðu sinni að eftir nokkuð mikla rigningu í nótt hafi myndast mikið svell, sérstaklega á göngustígum og bifreiðastæðum. "Hvetjum fólk til að fara sérstaklega varlega. Hvetjum fólk áfram til að fylgast með veðurspánni og færð á vegum ef farið er á ferðina," segir lögreglan.
Á vef Veðurstofu Íslands er varað við slæmu veðri. Mjög djúp lægð um 930 mb er á leið norður yfir landið, verst verður veðrið austantil á landinu með morgninum, en þar má búast við roki eða ofsaveðri og jafnvel fárviðri austast.