Eins og komið hefur fram í fréttum síðustu daga eru uppi hugmyndir um að byggja nýja flugstöð á svæði Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli, norðan við núverandi flugstöð. Áður hafði verið talað um að reisa veglega samgöngumiðstöð norðan við Loftleiðahótelið. “Það læðist að manni sá grunur að borgaryfirvöld séu að tefja málið með því að þvæla því fram og aftur, í þeirri von að það verði svo stutt í hægt verði að leggja Reykjavíkurflugvöll af, að ekkert verði af framkvæmdum. Ætlum við Akureyringar og aðrir íbúðar á landsbyggðinni, að láta bjóða okkur það að flogið verði með sjúklinga til Keflavíkur og þeim ekið þaðan á sjúkrahús í Reykjavík. Þjónustan er á höfuðborgarsvæðinu og við getum ekki látið það líðast að verið sé ræða um Keflavíkurflugvöll sem möguleika varðandi innanlandsflugið. Þetta er hreinlega niðurlægjandi umræða og með henni er verið að brjóta á okkar mannréttindum.”Jóhannes segir það alþekkt víða um heim að flugvellir séu staðsettir í borgum, m.a. fyrir millilandaflug. “Á þá kannski að leggja Akureyrarflugvöll af líka.” Hann segir það í raun ótrúlegt að fólk skuli láta bjóða sér þá aðstöðu sem nú sé til staðar á flugvellinum. “Það er verið að byggja tónlistarhús í borginni fyrir 25 milljarða króna en á sama tíma eru þeir sem eru að fljúga út á land látnir gera sér að góðu gamlan breskan herbragga. Þjónustustigið er fyrir neðan allar hellur. Eina flugstöðin sem ég hef séð sem er lakari en sú á Reykjavíkurflugvelli, er á Sikiley en það er reyndar búið að gera endurbætur á henni.”Jóhannes segir þingmenn hafi ekki beitt sér kröftuglega í þessu máli, nema þá helst Sigmundur Ernir Rúnarsson. Þá séu að margir að fara að nota þetta mál í borginni sem kosningamál fyrir væntanlegar borgarstjórnarkosningar. Hins vegar hafi borgarfulltrúar lítið viljað fara út í þessa umræðu um sjúkraflugið til Keflavíkur.