Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins 23. október sl.
Samveru- og stuðningshópurinn Lóan var stofnaður í apríl á þessu ári á Húsavík. Hópurinn er fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur.
„Markmið hópsins er koma saman og fá fyrirlesara um ýmis mál er tengjast málefninu,“ segir Guðrún Kristinsdóttir, ein af stofnendum hópsins í samtali við Vikublaðið og bætir við að viðburðir hópsins hafi verið vel sóttir.
„Núna í bleikum október höfum við verið með ýmsa viðburði t.d. prjónahitting og hann verður svo annan mánudag í hverjum mánuði. Við verðum með göngu alla laugardaga í október auk þess sem við erum með opið hús annan hvern fimmtudag í Bjarnahúsi,“ segir Guðrún.
Þá kom Lóan að viðburði í Miðhvammi á Húsavík sunnudaginn 19. október í samvinnu með Krafti, félagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

„Það var perlað af krafti með Krafti, armbönd sem Kraftur selur til styrktar ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein. Þessi viðburður var í Hvammi og mættu um 150 manns og perluðu 458 armbönd sem mun skila Krafti 1.5 milljónum, frábær árangur,“ segir Guðrún stolt.
Boðið var upp á veitingar á þessari fallegu samverustund en það voru Innes, Garðræktarfélag Reykhverfinga á Hveravöllum, Samkaup og Krabbameinsfélags Suður Þingeyinga sem gáfu veitingarnar.
„Við viljum færa öllum þessum aðilum þakkir fyrir stuðninginn,“ segir Guðrún og játar að mætingin á viðburðinn hafi farið langt framúr væntingum.
„Já, og við viljum þakka öllum þeim sem komu og tóku þátt, innilega fyrir ánægjulega og góða samveru,“ segir hún.
Í ágúst fóru Styrkleikarnir fram á Húsavík en viðburðurinn snýst um minnast þeirra sem hafa fallið frá vegna krabbameins, fagna þeim sem hafa sigrað baráttuna við krabbamein, safna fé til stuðnings rannsóknum og þjónustu við krabbameinssjúklinga og efla vitund og samstöðu í samfélaginu gegn krabbameini.
Gríðarlegur fjöldi fólks tók þátt í viðburðinum og gekk í sólarhring til stuðnings málstaðarins og segir Guðrún að þessa helgi í ágúst hafi myndast ótrúlega góð samstaða. „Markmið okkar hjá Lóunni er að halda í þá samstöðu og þann samtakamátt sem myndaðist á Styrkleikunum í ágúst. Stofna til viðburða og vettvang til að hittast og styrkja okkur í þeirri baráttu sem við etjum við krabbameinið,“ segir Guðrún að lokum.