Ljúffeng ítölsk pizza og toblerone eftirréttur

Hulda Rafnsdóttir deildarstjóri á FSA er mætt með uppskriftir í matarkrókinn. Að mati Huldu eru heimalagaðar pitsur með betri pitsum sem hún fær og hún hefur það fyrir venju að baka pitsu á föstudagskvöldum. "Hér kemur uppskrift að einni slíkri og gerir það þá gæfumuninn að hafa heimalagað pestó og rucola salat með."

Ljúffeng ítölsk pizza úr spelti með klettasalati og heimalöguðu pestói

Pitsudeig

40 ml vatn

40 ml olía

20 ml bjór

15 g þurrger

1 tsk salt

250-300 g spelt

Blandið volgu vatni, olíu og bjór saman í skál, leysið gerið upp í vökvanum og bætið síðan speltinu út í ásamt salti. Hnoðið deigið, gott að byrja í hrærivélinni og klára síðan á borði. Fletjið deigið þunnt út og setjið á vel smurða plötu.

Pitsusósa

2 hvítlauksgeirar pressaðir

2-3 stórir portobellosveppir

1 rauðlaukur sneiddur í hringi

1-2 stórir tómatar niðursneiddir

1 bréf parmaskinka (hráskinka)

100 g mozzarella ostur (fæst rifinn i pokum)

2 bollar gouda ostur rifinn

Ferskur parmesan ostur rifinn

Setið pizzusósu í skál og bætið hvítlauknum út í, setjið síðan yfir pitsuna. Sneiðið sveppina og steikið á pönnu, kælið örlítið og setjið yfir pitsuna. Síðan rauðlaukinn þá tómatana og leggið síðan parmaskinkuna í heilu lagi yfir.

Setjið að lokum mozzarella og gouda ost að smekk og að hluta til parmesan ost, geymið restina og bakið pitsuna við 200°C í um 20 mínútur.

Pestó

1 pakki ferskt basilikum

1 poki furuhnetur

1-2 hvítlauksgeirar

1-2 dl extra virgin olía

Klettasalat (rucola)

Setjið basilikum, furuhnetur og hvítlauk saman í mixara og mixið þar til orðið að fínlegri blöndu. Bætið síðan olíu út í, á að vera dálítið þykkt.

Gott er að setja klettasalatið ásamt parmesanostinum ofan á pitsuna og bera fram ásamt pestóinu. Og viti menn þetta er alveg svakalega gott.

Toblerone eftiréttur

4 græn epli

1dl valhnetur

1 dl kókosmjöl

2-3 msk púðursykur

Nokkrar smjörklípur

150 g hvítt Toblerone

70 g Sirius rjómasúkkulaði

Hitið ofninn 150°C. Sneiðið eplin og brytjið valhneturnar. Raðið eplunum í eldfast hringlaga form, valhneturnar eru settar yfir þá kókosmjölið og síðan púðursykurinn settur þar ofan á og að lokum smjörklípurnar settar yfir. Setjið inn í ofn og þegar eplin eru farin að meyrna er söxuðu Tobleroni og rjómasúkkulaðinu stráð yfir. Þetta er hitað þar til súkkulaðið er vel bráðið. Borið fram með vanilluís.

"Verði ykkur að góðu. Að lokum vil ég skora á snilldarkokkinn Ögmund Knútsson forstöðumann Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Ég veit fyrir víst að fiskmeti er hans sérgrein, en þó er aldrei að vita hvað hann hefur upp á að bjóða."

Nýjast