Ljótar jólapeysur þykja fallegar
Hefð er fyrir því að klæða sig í sparifötin og vera í sínu fínasta pússi um jólin. En ekki eru allir sammála um það. Undanfarin jól hafa nefninlega ljótar peysur komið í tísku, sem margir hafa gaman af og klæðast við flest tækifæri. Upphafið á öllu þessu má rekja þetta til Bandaríkjanna. Peysurnar voru vinsælar uppúr áttunda og núunda áratug síðustu aldar. Peysurnar hafa undanfarið verið að sækja í sig veðrið hér á Íslandi og margir sem skarta þessum peysum.
Oftast er þetta nú mest upp á grínið og vinahópar taka hitting til bera saman og jafnvel keppa um ljótustu peysuna. Peysur af þessu tagi eru nú til sölu á nokkrum stöðum á Akureyri, bæði í verslunum og í heimahúsum þar sem þær eru m.a. seldar í gegnum Facebook.
Vikudagur setti sig í samband við hjón sem selja ljótar jólapeysur til Akureyringa á netinu og forvitnaðist um áhuga bæjarbúa á þessum fatnaði. Í ljós kom að áhuginn er mikill. Meðal annars er keppni um ljótustu peysuna á vinnustöðum, saumaklúbbum og í raun hvar sem er sem fólk kemur saman. Ljótu jólapeysuæðið er greinilega veruleiki á Akureyri eins og svo víða. Sölumenn ljótu peysanna hér tjáðu Vikudegi að hugmyndina hefðu þeir fengið úr amerískum kvikmyndum. En þegar þeir sáu að hægt var að kaupa álíka peysur í höfuborginni þótti þeim einsýnt að það yrði að vera hægt að kaupa slíkar peysur í höfuðstað Norðurlands líka.
Ljótar jólapeysur gætu, að því er virðist, farið að ógna hefðbundnum spariklæðnaði yfir hátíðarnar og þannig telja t.d. viðmælendur Vikudags ekki ósennilegt að ýmsir muni telja að jólapeysa fari vel við náttbuxurnar á jóladag og hugsanlegt sé að jólapeysur fari að verða gjaldgengar í jólaboðin líka. Þar höfum við það.
-RÁP (Viðtalið birtist í Jólablaði Vikudags)