Ljósmyndasýningin Þjóðin, landið og lýðveldið á Minjasafninu

Ljósmyndasýningin; Þjóðin, landið og lýðveldið, verður opnuð á Minjasafninu á Akureyri í dag, laugardaginn 26. mars kl 14.00. Sýningin sem kemur frá Þjóðminjasafni Íslands samanstendur af ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara frá árunum 1928-1958.  

Á henni má meðal annars sjá landlagsmyndir, myndir unnar fyrir heimssýninguna í New York 1939, myndir af fólkinu í landinu við leik og störf auk mynda frá ferðum Vigfúsar innanlands með tveimur fyrstu forsetum lýðveldisins. Vigfús Sigurgeirsson (1900-1984) lærði ljósmyndun á Akureyri hjá Hallgrími Einarssyni 1920 til 1923 og rak ljósmyndastofu þar í bæ frá 1923 til 1936.

Líklega er hann þekktastur fyrir störf sín sem opinber ljósmyndari forsetaembættisins til margra ára. Hann fylgdi forsetanum og tók þátt í að móta ímynd embættisins. Hann var einn fremsti ljósmyndari Íslendinga um miðbik 20. aldar og frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð.

Ljósmyndir Vigfúsar voru sýndar í Hamborg, New York, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Ljósmyndabók hans; Ísland í myndum,var fyrsta ljósmyndabók eftir Íslending og hann varð einnig fyrstur Íslendinga til að gefa út bók með ljósmyndum í lit. Gefin var út bók um Vigfús í  tengslum við sýninguna 2008 sem ritstýrt er af Ingu Láru Baldvinsdóttur sýningarstjóra. Sýningin á Minjasafninu stendur fram yfir páska, eða til 26. apríl.

Nýjast