Ljóðalög Jóns Hlöðvers í kvöld

Söngtónleikar með heitinu Ljóðalög Jóns Hlöðvers verða haldnir í Ketilhúsinu á Akureyri í kvöld, miðvikudaginn 9. maí, og hefjast kl. 20:30. Eins og nafnið gefur til kynna verða á söngskránni eingöngu lög eftir Akureyringinn Jón Hlöðver Áskelsson. Með tónleikum þessum vill tónskáldið heiðra Sigurbjörgu Hlöðversdóttur móður sína 85 ára, og einnig minningu Áskels Jónssonar föður síns, sem um árabil var mikil driffjöður í söng- og tónlistarlífi á Akureyri.

Aðgangseyri og frjálsum framlögum á tónleikunum verður óskiptum varið til Orgelsjóðs Glerárkirkju, en þann sjóð stofnuðu Áskell og Sigurbjörg árið 1986. Flytjendur á tónleikunum eru: Margrét Bóasdóttir - sópran, Daníel Þorsteinsson á píanó, ásamt kammerkórnum Hymnodia undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Á efnisskránni verður fluttur söngvaflokkurinn „Vísur um draum" við 12 ljóð eftir Þorgeir Sveinbjarnarson, sem frumfluttur var af Michael J. Clarke og Richard Simm í Reykholti 14. ágúst 2005 á hátíð haldinni er 100 ár voru liðin frá fæðingu skáldsins. Þráinn Karlsson les ljóðin upp á undan. Einnig verður fluttur þriggja laga söngvasveigur, „Mýrarminni", við ljóð eftir Jón Bjarman (frumflutt), Sverri Pálsson og Snorra Hjartarson.

Tónleikunum lýkur með kórverkinu „Í fjallasal" við ljóð Sverris Pálssonar, sem samið var í minningu Áskels Jónssonar. Stuðningsaðilar þessara tónleika eru: Tölvutónn ehf, Akureyrarstofa, Glitnir, FÍH, Ásprent, Offsetstofan og Menningarsjóður Félagsheimila. Vorgleði á að ríkja á tónleikunum. Tekið við aðgangseyri, kr. 1.000, og frjálsum framlögum við innganginn.

Nýjast