Ljóðahátíð í Populus tremula á Akureyri um helgina

Ljóðahátíð verður haldin í Populus Tremula á Akureyri um helgina. Hátíðin hefst á föstudagskvöld kl. 21 og verður fram haldið á sama tíma á laugardagskvöld. Á laugardaginn kl. 14 verður svo haldið málþing um ljóðlist í Populus tremula. Á hátíðinni lesa nokkur af fremstu ljóðskáldum samtímans upp úr verkum sínum.  

Fram koma: Jón Laxdal, Eiríkur Örn Norðdahl, Þórarinn Eldjárn, Þorsteinn frá Hamri, Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Ingunn Snædal, Gyrðir Elíasson og Magnús Snædal. Á málþinginu fjalla þeir Þorvaldur Þorsteinsson og Kristján Kristjánsson um ljóðagerð á 21. öld. Markmiðið með hátíðinni er að gefa heilsteypta mynd af íslenskri ljóðlist ár hvert og bjóða upp á spennandi viðburði fyrir unnendur ljóðsins. Jafnframt að festa í sessi árlegan bókmenntaviðburð á Norðurlandi, utan hefðbundins kynningartíma bókmenntanna. Að auki er það markmið með hátíðinni að bjóða upp á sérstaka menningartengda dagskrá yfir vetrarmánuðina á Akureyri.

Skipuleggjendur ljóðahátíðarinnar eru þeir Gunnar Már Gunnarsson, Atli Hafþórsson og Hjálmar Stefán Brynjólfsson, sem allir eru áhugamenn um ljóðlist, sem og menningarstarf á Akureyri.

Nýjast