Litla ljóðahátíðin fer fram á Akureyri um helgina

Stutt bókmenntahátíð sem ber hið hæverska nafn Litla ljóðahátíðin fer fram á Akureyri helgina 16. - 17. apríl. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin. Í ár koma fram; Sigurður Pálsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Bragi Ólafsson, Haukur Ingvarsson, Magnús Sigurðsson og Hermann Stefánsson.  

Fyrsta hátíðin fór fram í fyrra og heppnaðist afar vel. Aðsókn var mjög góð og frábær stemning ríkti á ljóðakvöldunum tveimur. Vonir standa til að nýta þennan meðbyr langt fram eftir 21. öldinni og bjóða upp á frábær ljóðakvöld á meðan skipuleggjendur standa í báðar lappirnar. Á Litlu ljóðahátíðunum er áheyrendum boðið upp á spennandi og heilsteypta dagskrá sem gefur glögga mynd af íslenskri ljóðlist ár hvert. Á hátíðinni er lagt upp með að bjóða í hvert sinn upp á fjölbreytt efni. Líkt og í fyrra verða tvö ljóðakvöld þar sem nokkur af fremstu ljóðskáldum samtímans lesa upp úr verkum sínum. Að auki verður boðið upp á fyrirlestra um ljóðlist laugardaginn 17. apríl. Ljóðakvöld hátíðarinnar verða haldin í Populus Tremula í Listagilinu, en fyrirlestrarnir fara fram á menningarsetrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal. Viðburðir hátíðarinnar verða öllum opnir án endurgjalds. Styrktaraðilar hátíðarinnar í ár eru: Menningarráð Eyþings, Forlagið, Bókmenntasjóður, Norðurorka og Akureyrarstofa en skipuleggjendur eru Gunnar Már Gunnarsson, Atli Hafþórsson og Hjálmar Stefán Brynjólfsson.

Nýjast