Lítið um framkvæmdir í Holta- og Hlíðahverfi á næstunni

Lítið verður um framkvæmdir á vegum Akureyrarbæjar í Holta-og Hlíðahverfi, en þó á að snyrta svæðið í kringum undirgöng sem gerð voru undir Hörgárbraut.  Þá stendur til að gera könnun á notkun skólabarna á göngunum með vorinu.   

Aðalfundur hverfisnefndar í Holta- og Hlíðahverfi var haldinn á dögunum og segir Ingvar Þóroddsson formaður, að þar hafi m.a. verið flutt áhugavert erindi um nágrannavörslu og hefðu fundargestir sýnt slíkri gæslu áhuga. Þá var kynnt verkefni sem einnig þótti áhugavert og snýst um Akureyri sem svonefndan hæglætisbæ, (Slow Town) og kom fram að mikilvægt væri að frumkvæði að slíku kæmi frá íbúunum sjálfum. Þá var fjallað um sorphirðumál, en breytingar á fyrirkomulagi þeirra eru í vændum og er útboð varðandi sorphirðu í gangi.

Á fundinum kom fram að sögn Ingvars, óánægja með að ekki stendur að svo stöddu til að ljúka gerð göngustígs meðfram Glerá. Stígurinn sem fyrir er nýtur vinsælda göngufólks og eru til í skipulagi hugmyndir um að halda áfram með gerð hans frá Glerárbrú við Hörgárbraut og niður í Sandgerðisbót.  Með því að ljúka við gerð stígsins sjá menn fyrir sér möguleika á góðri gönguleið, en fyrir er stígur frá Bótinni og upp að Bárufelli.

Nýjast