Lítið takk!

Ásgeir Ólafsson
Ásgeir Ólafsson

Of stórir skammtar er líklega stærsta samfélagsógn okkar í dag. Sumir borða allt of lítið,  meðan aðrir geta ekki hætt að borða eða borða á sig gat í hvert skipti. Líkt og þeir fái aldrei aftur að borða. Þetta er ávani. Í vestrænum heimi þá er þetta orðið það stórt vandamál að fólkið þar er orðið fórnarlömb heilsumarkaðarins sem grimmur sér sæng sína útbreidda og nýtir sér veikleika okkar. Seljendur vilja selja sem mest af vöru sinni og hafa fundið leið til að koma þeim til okkar í miklu magni.

Ef mér er boðið stórt gosglas með mat á veitingastað sem kostar 500 krónur meðan lítið glas kostar 400?  Hvort ætti ég að panta? Við viljum fá sem mest fyrir peninga okkar ekki satt og þeir vilja selja sem mest. Hvernig geta þeir verið að græða á þessum auka hundrað kalli? Ég hlýt að vera að græða. Eða hvað? Stórt gosglas er yfirleitt allt of mikið fyrir okkur að drekka með mat. Í stórum sykruðum kóladrykk geta verið 200 hitaeiningar og sextán sykurmolar.

Allt of margir falla í þessa gryfju og kaupa stórt fyrir auka 100 kall, “til að græða meira gos fyrir lítinn aukapening”. Þeir súpa svo seiðið af þeirri akvörðun löngu eftir að maturinn er búinn og klára hann, þrátt fyrir að þeir séu löngu orðnir mettir. Til að klára og tapa ekki peningum.  Afleiðingar þeirrar ákvörðunar eru 16 sykurmolar og 200 hitaeiningar til viðbótar.

Með slíkri hugsun ert þú líklega orðið fórnarlamb. Þú ert orðinn einhver sem heldur að hann sé að græða þegar hann er að tapa. Þú tapar pening og líkamlegu ágæti. En hvað ef ég set dæmið svona upp? Hvað ef 0.5 líter af gosi ætti ekki að kosta veitingastaðinn meira en 150 krónur, og 1 líter ætti þá ekki að kosta meira en 350 krónur til að staðurinn hagnist verulega?

Þegar þú gengur inn á veitingastað, eða inn í hvaða verslun sem er sem býður þér hvaða afslátt sem er,  þá græðum við aldrei á meðan við þurfum að taka upp veskið og reiða þar fram krónur. Þeir græða á okkur. Þannig getum við heldur ekki sparað okkur pening. Það er sama hvernig þú teiknar þetta dæmi. Þú getur ekki grætt neitt nema að spara þér pening,  ekki með að reiða hann fram í verslun eða á veitingastað.

S.l. 10 árin hafa skammtastærðir á Íslandi aukist verulega. Við erum að fá meira af mat fyrir minni pening og með því, kaupum við allt of mikið. Matarsóun hefur því aldrei verið meiri. Þessu sjónarhorni er hægt að venda. Hér er annað dæmi. 2 lítrar af gosdrykk kosta 198 krónur þar sem ég versla meðan hálfur líter,  eða einn fjórði magnsins í 2 lítrum, kostar 165 krónur. Af hverju kostar einn fjórði skammtsins ekki einn fjórða verðsins? Eða 50 krónur? Maður hlýtur að spyrja sig?

Þeir sem selja þessa drykki eru að mokgræða á tveggja lítra sölunni. Ímyndið ykkur þá hver hagnaðurinn er af hálfs líters flöskunni? Þetta er eins á veitingastaðnum. Hver er að græða, þeir eða við? Sama hvernig þú hugsar þetta þá ert þú aldrei að græða. Þeir græða. Ef það er auglýstur 50% afsláttur einhversstaðar þá erum við ekki að spara okkur helming. Hugsunarvilla.

Þess vegna þarf að spyrja sig spurningar. Hvað er nóg fyrir mig? Lítil gosflaska er meira en nóg fyrir mig með mat.   Þó svo hún kosti 400 krónur á veitingastað miðað við að stórt gosglas, eða helmingi meira af gosdrykk, kostar bara 100 krónum meira. Eða 500 krónur. Ég þarf að hafa mig allan frammi í að halda í þessi gildi mín. Að panta einungis  það magn sem er nóg fyrir mig. 

Alls staðar þarf ég að vera á varðbergi. Ég þarf að vanda mig þegar ég panta. Við erum ekki að græða með að leggja út 100 kr meira í eitthvað sem við þurfum ekki. Myndir þú einhverntímann henda 100 krónum í ruslið? Ekki? Af hverju ertu þá að henda honum í veitingastaðinn þegar þú hefur ekkert með meira gos að gera? Þetta kallar á viðhorfsbreytingu.

Við þurfum bara nokkra sopa með mat. Þeir kosta okkur í þessu tilfelli 400 krónur. Við þurfum ekki meira. Við drekkum allt of mikið með afleiðingunum, fleiri hitaeiningar og mun meira vesen. Þú þarft ekki að klára. Sér - Íslenskar hlaðborðsafleiðingar. Stýrum skammtastærðunum af því að þeim er ekki stýrt fyrir okkur. Borðum nóg af venjulegan mat. Öllum mat.

Þú ættir að prófa eitt. Allt kaffið sem þú kaupir og pantar.  Maturinn sem þú pantar á veitingastað.  Djúsinn sem þú kaupir. Gosið sem þú kaupir. Næst þegar þú pantar, þá pantar þú  “lítið takk”

“Lítið takk” er motto vetrarins. Allt minnkar. Allt sem kostar sem dæmi 100 krónum meira en er miklu meira í grömmum verður ekki fyrir valinu.  Af því þú þarft það ekki. Súkkulaðistykkið verður lítið þrátt fyrir að XXL kosti bara 10 krónum meira. Af því að lítið er nóg. Þið eruð ekki að græða með því að panta meira.

Það er ástæða fyrir því að þjóðin hafi þyngst í takt við þessar breytingar. Þetta er það sem lagði Bandaríkin á hliðina. Lítill drykkur þar er eins og XL drykkur hér.  Verðmunur á milli Small og XL þar er nánast enginn. Svo allir kaupi XL. Þar eru stór hluti þjóðarinnar orðin fórnarlömb. Af því þeir halda að þeir eru að græða. Þannig þyngjumst við og borðum og drekkum meira. Seljendur græða.

Við Íslendingar eru smám saman að aðlaga okkur vesturmenningu. Við erum að borða allt of mikið þegar við þurfum þess ekki. Frekar eigum við að finna hvað við þurfum mikið og láta það nægja. Ekkert meira. Fáðu sem mest fyrir peninginn og heilsuna með því að panta minna.  Alltaf að panta lítið. Þar til það verður orðið þér meðvitað. “Lítið takk”.

Skoðið í alvöru hvað stór kaffidrykkur á Dunkin Donuts er  stórt á meðan litla stærðin þar er helmingi meiri en nóg fyrir okkur. Verðmunurinn er samt bara nokkrar krónur. Skoðið hver munurinn er á Joe and the Juice á stórum og litlum djús. Verðið er 990 lítill og 1190 stór. Það munar aðeins 200 krónum. Samt er lítill nóg fyrir mig.

Þarna er verið að stýra þér í að kaupa stórt hvar sem þú kemur. Þú stýrir engu fyrr en þú kaupir það sem er nóg fyrir þig. Það er búið að heilaþvo okkur með þessari markaðs ”meðferð” sl árin að við höfum á þessu litla sem enga stjórn. Þessari stjórn þurfum við að ná til baka. Þú nærð henni með því að æfa þig. Þetta er ekkert annað en örlítill viðsnúningur í hugsun sem gerir þig enn sterkari neytanda.

Til að gera langa sögu stutta. Ef þú drekkur einn kaffi latte á dag í eitt ár, sem inniheldur flóaða mjólk og kaffi. Pantar alltaf lítinn í stað þess að panta stóran, þá eru það 2,5 kg af hreinni fitu talið yfir árið sem þú sparar þér. Bara í kaffinu.

Sem er hitaeiningalítil vara. Ímyndaðu þér þá þegar þú erum kominn með hitaeingaríkari vörur líkt og gos eða súkkulaði, bakkelsi eða brasaðan mat. Ef þið veljið alltaf lítið, er það yfir árið talið í tugum kílóa sem líkaminn þarf  ekki að brjóta niður og vinna úr.

Hér kemur þá stóra spurningin. Gæti það mögulega verið það eina sem þú þarft að gera til að ná aftur ákjósanlegri tölu á vigtinni? Að  borða allt sem þig langar í en panta alltaf lítið?

Prófaðu þetta fram á jólum. Sjáðu hvað gerist. Það er alltaf einhver ástæða fyrir því að við þyngjumst. Við þurfum bara að vita af hverju.

Góðar stundir.

-Ásgeir Ólafs

Höfundur er með lokaðann hóp á Facebook sem heitir “182 dagar September 17”.  Þar er opin skráning til áramóta.


Athugasemdir

Nýjast