List án landamæra á Húsavík

Marina Rees og Anna María  eru hér að vinna með skúlptúr úr tré. Mynd: Sigga Hauks
Marina Rees og Anna María eru hér að vinna með skúlptúr úr tré. Mynd: Sigga Hauks

List án landamæra er listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins. Allir sem vilja geta tekið þátt! Á hátíðinni vinnur listafólk saman að allskonar list með frábærri útkomu. Það leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli.

Ákveðið var að efna til þessarar hátíðar á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur hún verið haldin árlega síðan. List án landamæra er orðin fastur liður í menningarflóru Húsvíkinga. Að þessu sinni er Miðjan hæfing, dagþjónusta og geðræktarmiðstöð í samstarfi við Hvalasafnið á Húsavík, Fjúk art and design center, leikskólann Grænuvelli og Þekkingarnet Þingeyinga með sýningu um hvali.

Fjölmennur hópur eða um 50 einstaklingar, hefur verið að vinna að undirbúningi hátíðarinnar síðan fyrir áramót. Það sem hefur verið unnið í er helst að nefna stór hvalaskúlptúr, 6,5 metrar á lengd, sem verður fyrir utan Hvalasafnið í sumar. Auk þess verður sýning innandyra þar sem heill veggur verður undirlagður af alls konar verkum eftir hópinn. Í Fjúk art center verður einkasýning á verkum Einars Annels Jónassonar. Auk þess verða vörur til sölu í verslun Hvalasafnsins í allt sumar, barmmerki, póstkort, skúlptúrar, hvalir og ýmislegt fleira.

Sýningin verður afhjúpuð og sett formlega á morgun, laugardaginn 14. maí í Hvalasafninu á Húsavík klukkan 13:00 og stendur til 15:00 þann sama dag. En sýningin verður uppi í allt sumar og vörur til sölu í verslun. Sýning Einnars Annels verður opnuð á sama tíma í húsnæði Fjúk í verbúðunum á Húsavík.

Allir hjartanlega velkomnir, kaffi, safi og kaka í boðinu. SH/js

Nýjast