Lísa og Lísa í kvöld

Saga Geirdal Jónsdóttir og Sunna Borg bregða sér í hlutverk samkynhneigðs pars í leikritinu Lísa og Lísa sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í kvöld. Í stuttu máli fjallar leikritið um samkynhneigðar konur á sjötugsaldri sem hafa búið saman í 30 ár, hálfpartinn í felum. Þær Saga og Sunna segja hlutverkin mikla áskorun og leikverkið taki á málefni sem mörgum þykir feimnismál.

-Hvernig hefur undirbúningurinn gengið?

Saga: „Mjög vel. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími fyrir okkur báðar. Margt samkynhneigt fólk hefur komið á æfingar hjá okkur og fylgst með. Oft hafa skapast miklar umræður þar sem við höfum m.a. fengið ráðleggingar frá áhorfendum. Við þekkjum lítið til í veröld samkynhneigðra og fannst gott að fá viðbrögð frá þeim, hvort þetta sé veruleiki sem þau kannist við.“

Sunna: „Það gaf okkur heilmikið að geta spurt þau álits og mjög fræðandi. Samkynhneigðir eru stór hluti af okkar nærsamfélagi, mun stærri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Ég tel að þetta leikrit geti hálpað mörgum sem eru innilokaðir og treysta sér ekki til þess að koma út úr skápnum.“

Saga: „Ég er sammála þessu. Fólki sem er innilokað líður ekki vel en sem betur fer eru tímarnir að breytast og veruleikinn annar í dag en hann var.“

-Hvernig er fyrir ykkur að leika samkynhneigt par?

Saga: „Fyrst og fremst mikil áskorun. Þetta er öðruvísi hlutverk en við höfum áður fengist við. En sem leikari er einmitt skemmtilegast að prófa nýja hluti og ekki vera fastur í sama farinu.“

Sunna: „Okkar persónur koma út úr skápnum eftir 30 ára samvist og ég held að það séu mörg raunveruleg dæmi um að fólk hafi lifað í feluleik stærsta hluta lífsins eins og aðalpersónurnar. Leikritið er fallegt og boðskapurinn sterkur. En þrátt fyrir að tvær eldri konur séu í aðalhlutverki er þetta alls ekkert kerlingaleikrit. Karlmenn munu ekki síður hafa gaman af þessu.“

 

Nánar er rætt við Sögu og Sunnu í prentútgáfu Vikudags

Nýjast