Fæðingadeild FSA fékk fjárstuðning upp á 250 þúsund krónur til kaupa á mjaltavél fyrir mjólkandi mæður. Mikill áhugi er fyrir brjóstagjöf á Íslandi, sem er til fyrirmyndar og kemur mjaltavélin sér vel fyrir þær konur sem eiga í erfiðleikum með brjóstagjöf til að byrja með.
Jón Heiðar Jónsson fékk styrk að upphæð 50 þúsund krónur til fjármögnunar á þjálfun hjálparhundsins Greifa en hann var fenginn til að aðstoða og hjálpa Bjarneyju dóttur Jóns, sem er haldin vöðvasjúkdómi og þarf aðstoð við ýmsar daglegar athafnir. Þá er Greifi hjálplegur á margan hátt en einnig er hann tryggur og hlýðinn og Bjarneyju góður félagi.
Þá fékk Mæðrastyrksnefnd Akureyrar styrk að upphæð 75 þúsund krónur. Lionsklúbburinn Ösp hefur stutt Mæðrastyrksnefnd með fjárframlögum á undanförnum árum og er það leið félagskvenna til að koma á framfæri þökkum til þeirra sem vinna þar ótrúlega mikið og óeigingjarnt starf.