Lilla Steinke er Ungskáld 2019

Frá uppskeruhátíð Ungskálda á Amtsbókasafninu. Frá vinstri: Sandra Marín Kristínardóttir, Kristín Ár…
Frá uppskeruhátíð Ungskálda á Amtsbókasafninu. Frá vinstri: Sandra Marín Kristínardóttir, Kristín Árnadóttir, Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, Björn Þorláksson og Lilla Steinke. Á myndina vantar Daniel Ben. Mynd: Ragnar Hólm / Akureyrarstofa.

Lilla Steinke er Ungskáld Akureyrar 2019 en úrslit í ritlistakeppni Ungskálda voru kunngerð á Amtsbókasafninu á Akureyri á dögunum. Lilja hlaut verðlaunin fyrir ljóðið „Ég heyri rödd þína í rigningunni." Önnur verðlaun komu í hlut Söndru Marínar Kristínardóttur fyrir verkið „Tíu ára tímabil“ og þriðju verðlaun hlaut Daniel Ben fyrir verkið „Hvað ef ég er ekki kona?“.

Ungskáldaverkefnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi en markmiðið með því er að hvetja ungt fólk á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa. Verkefnið hefur vaxið og dafnað vel á síðustu árum og umfang þess aukist, segir í tilkynningu frá Akureyrarbæ. Þar segir ennfremur að síðasta mánuðinn eða svo hafi ýmislegt verið á döfinni í höfuðstað Norðurlands fyrir ungt fólk með áhuga á ritlist.

„Í byrjun nóvember var haldin ritlistasmiðja Ungskálda í Verkmenntaskólanum. Leiðbeinendurnir voru rithöfundarnir Stefán Máni og Bryndís Björgvinsdóttir sem jusu úr viskubrunnum sínum og leiðbeindu ungmennunum. Líkt og áður var smiðjan opin öllum á aldrinum 16-25 ára og þátttakendum að kostnaðarlausu. Í framhaldinu var blásið til ritlistakeppni Ungskálda. Engar kröfur voru gerðar um að hafa sótt ritlistasmiðjuna, allir á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi eystra höfðu tækifæri til þess að senda inn verk í keppnina.

Engar hömlur voru á lengd og formi verka en textinn þurfti þó að sjálfsögðu að vera á íslensku. Í ár var svo bætt við þeirri nýjung að efna til kaffihúsakvölds Ungskálda en það var haldið fyrr í vikunni og sótt af um 30 manns. Efnileg ungskáld lásu upp eigin verk og annarra og aðrir komu einfaldlega til þess að hlusta og njóta.“

Í dómnefnd ritlistakeppninnar að þessu sinni voru þau Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, bókmenntafræðingur, Kristín Árnadóttir, fyrrverandi íslenskukennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, og Björn Þorláksson, rithöfundur og fyrrum bæjarlistamaður.

 

 


Nýjast