Líknardeild verður ekki reist á Akureyri í bráð

„Í því ástandi sem nú ríkir er ekki svigrúm til að hefja nýja starfsemi," segir Halldór Jónsson framkvæmdastjóri Sjúkrahússins á Akureyri spurður um áform varðandi opnun líknardeildar við Sjúkrahúsið.  „Við erum með málið í bið."  

Til hefur staðið um nokkurt skeið að opna líknardeild við Sjúkrahúsið og var undirbúningur kominn nokkuð á veg.  Meðal annars var búið að taka frá rými á lóð sjúkrahúsins undir nýja byggingu, svæðið hafði verið deiliskipulagt og búið var að samþykkja það.  Þá hafði um 5-10 milljónum króna verið varið til ýmis konar undirbúnings vegna málsins.

„Ég hef trú á því að ef kreppan hefði ekki skollið á hér fyrir ári síðan væri þetta í öðrum farvegi.  Það var mikill vilji til að koma þessari deild upp við sjúkrahúsið.  „Við viljum og ætlum okkur að koma þessari deild upp og vonum svo sannarlega að sá dagur renni að hún verði tekin í notkun," segir Halldór. 

Ljóst er þó að ekki verður að því í bráð, því fyrirmæli frá ríkinu séu þess eðlis að ekki er heimilt að hefja nýja starfsemi og jafnvel er mælst til þess að starfsemi sem nýlega hafi verið tekin upp verði hætt.  „Það er því enginn flötur á því að hefja þessa starfsemi á meðan þetta ástand varir og mér sýnist útlitið fyrir næsta ár ekki bjart.  Það er ljóst að fjárveitingar til Sjúkrahússins á Akureyri verða skornar niður um hundruðir milljóna.  Eitthvað verður því undan að láta," segir Halldór.

Nýjast