20. september, 2007 - 15:14
Fréttir
Vilhelm Anton, einnig þekktur sem Villi naglbítur, opnar sýningu á málverkum í Deiglunni laugardaginn 22. sept. kl. 14:00. Tveimur tímum síðar, eða kl. 16:00 opnar Þórarinn Blöndal sýninguna ,,inn-rými" í Gallerí +, Brekkugötu 35 á Akureyri. Sýninginn samanstendur af ljósmyndum og rýmisverkum og er vinnurými Þórarins viðfangsefni verkanna. Sýning Vilhelms er hans fjórða einkasýning og sú fyrsta í tvö ár. Hann málar fígúratívar en um leið abstrakt myndir, með olíu á striga.Verkin eru kraftmikil, hrá og lifandi og fjalla um snertingu og losta. Konur snerta konur, menn snerta konur og menn snerta menn. Þau eru máluð með sterkum litum eða svart hvít. Vilhelm hefur nýlega gefið út plötuna The Midnight Circus sem hann samdi og tók upp á einu ári þegar hann bjó í London 2006. Málverkin
eru unnin á árinu 2007 samhliða því er hann kláraði og gekk frá plötunni. Ekkert verkanna hefur verið sýnt áður. Sýningin stendur í tvær vikur til 7. október.
Sýning Þórarins er hans 7. einkasýning en hann hefur sýnt víða bæði heima og erlendis. Sýninginn stendur til 7. október og er opið á laugardögum og sunnudögum
milli kl. 14-17 og aðra daga eftir samkomulagi í síma 462 7818.