Þessi árangur gerir það að verkum að Leikfélag Hörgdæla á aðsóknarmestu leiksýningu allra áhugaleikhópa á landinu á þessu leikári. Leikfélag Hörgdæla ákvað að slá ekki slöku við og í desember munu hefjast æfingar á leikritinu "Lífið liggur við " eftir Hlín Agnarsdóttir . Hér er um að ræða leikrit sem gerist í samtímanum og söguþráðurinn á eflaust eftir að snerta allan tilfinningaskalann hjá áhorfendum. Áætlað er að frumsýna verkið í byrjun mars á næsta ári. Leikstjóri verður Saga Jónsdóttir sem hefur margoft unnið með Leikfélagi Hörgdæla við góðan orðstír og enn og aftur vænta Hörgdælar mikils af henni.
Breytingar urðu á stjórn en Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir, Tryggvi Gunnarsson og Ásgeir Már Hauksson ganga úr stjórn og í þeirra stað koma Stefán Jónsson, Axel Vatnsdal og Sigríður Svavarsdóttir. Halla Halldórsdóttir og Bernharð Arnarson sitja áfram í stjórn og var Bernharð jafnframt kosinn sem nýr formaður.