Páll Björnsson skrifar
Norðanátt og sólskin. Miðbærinn iðar af lífi. Eða hvað? Akureyringar vita að því er ekki þannig farið vegna þess að þar er fáa skjólsæla staði að finna. Eitt af markmiðum nýja skipulagsins, sem kynnt var fyrir fáeinum árum, var einmitt að búa til slíka staði með því að snúa miðbænum um 90 gráður. Þungamiðjan í því var að grafa síki þvert á Hafnarstrætið. Nú virðist þetta skipulag hafa verið lagt til hliðar, allavega tímabundið, einkum vegna mikils kostnaðar sem því hefði verið samfara.
Margir Akureyringar hafa lýst yfir áhuga sínum á því að gera Ráðhústorgið líflegra. Þannig tóku nokkrir sig til fyrir fáeinum árum síðan og tyrfðu hluta af því til að minna á að þar var gróðurreitur áður en það var steinlagt. Skiljanlega sjá margir möguleika í torginu. Það ætti auðvitað að vera nokkurs konar hjarta bæjarins. Tilfellið er að með einföldum aðgerðum mætti gera það að alvörutorgi.
Í fyrsta lagi þyrfti að ljúka við byggingu Landsbankahússins. Þar sem bankinn stendur var fyrirhugað að reisa ráðhús Akureyrar á sínum tíma en bærinn lét bankanum lóðina eftir. Húsið teiknaði Bárður Ísleifsson í klassískum stíl eftir frumdráttum Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Auk þess að byggja við Landsbankahúsið þyrfti að reisa nýtt hús er myndi ná frá viðbyggingunni út að Strandgötu; húsið yrði m.ö.o. fyrir framan sjö hæða íbúðaturn sem þar stendur og myndi loka fyrir umferð inn á torgið frá Túngötu (sem liggur frá Arion banka að torginu). Engin ástæða er til að óttast þessar breytingar því að snjallir arkitektar geta vísast fundið lausn þar sem íbúðaturninn myndi áfram þjóna hlutverki sínu. Aðalatriðið er að hugmyndin sé útfærð í góðri samvinnu við bæjarbúa.
Með þessum nýbyggingum myndast gott skjól á Ráðhústorgi, auk þess sem svæðið fyrir framan þær mun vita vel við sólu. Jarðhæðir þeirra er því tilvalið að nota undir kaffihús og veitingastaði, eða aðra þá starfsemi sem gæti teygt sig út á torgið þegar til þess viðraði. Með þessum einföldu aðgerðum mætti gera Ráðhústorgið lifandi um leið og það yrði eitt af svipmeiri torgum landsins.
Höfundur er sagnfræðingur og dósent í nútímafræði við HA.