Lið Brekkuskóla stóð sig með miklum sóma í Skólahreysti MS

Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði í Skólahreysti MS 2011 en úrslitakeppni 12 grunnskóla fór fram í Laugardalshöllinni í gærkvöld, í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Holtaskóli fékk 60 stig, í öðru sæti varð Lindaskóli með 59 stig og Grunnskólinn á Ísafirði varð í þriðja sæti með 51 stig. Brekkuskóli á Akureyri stóð sig vel í gríðarlega harðri og jafnri keppni og hafnaði í sjöunda sæti með 35 stig.   

Keppendur Brekkuskóla komu með öflugt stuðningsmannalið að norðan í Laugardalshöllina, sem lét sitt ekki eftir liggja í baráttunni. Fulltrúar skólans í keppninni voru þau Stefán Trausti Njálsson, Kara Knutsen, Alda Ólína Arnarsdóttir og Oddur Viðar Malmquist. Það voru stuðningsmenn skólanna, um 2.500 talsins, sem slógu taktinn í byrjun móts með frábærri innkomu við kynningar á skólunum. Stemmningin var mögnuð allt mótið og Logi Geirsson sem lýsti keppninni í Sjónvarpinu ásamt Eddu Sif Jónsdóttur, sagði að það væri meiri stemmning í Skólahreysti heldur en á landsleik í handbolta. Búningar, flott skilti, kroppamálning og ótrúleg orka í krökkunum við að styðja sinn skóla skapaði þessa kröftugu stemmningu. 

Tólf skólar komu í úrslit og voru þeir :  Hvolsskóli, Lindaskóli, Holtaskóli/Reykjanesbæ, Egilsstaðaskóli, Dalvíkurskóli, Brekkuskóli/Akureyri, Gr.Húnaþings vestra, Gr.á Ísafirði, Árbæjarskóli, Valhúsaskóli, Heiðarskóli/Reykjanesbæ og Lágafellsskóli/Mosfellsbæ. Enginn skóli var öruggur með fyrsta sæti í öllum greinum. Góður árangur  innan hverrar greinar blandaðist vel á milli allra skóla. Öll liðin skiluðu því frábæru móti og glæsilegum árangri, enda voru þarna á ferð keppendur frá 12 bestu skólum landsins í Skólahreysti MS að þessu sinni. Árangur, úrslit í hverri grein og lokaúrslit má sjá á Skólahreysti.is.

Nýjast