Lið Akureyrar úr leik í spurningakeppninni Útsvari

Lið Akureyrar var slegið út í Útsvari, spurningakeppni Sjónvarpsins, er það mætti liði Reykjanesbæjar, í æsispennandi keppni í kvöld. Rimma liðanna var mjög jöfn og spennandi frá upphafi til enda og Akureyringarnir áttu möguleika á að jafna með því að svara síðustu spurningunni, sem var upp á 15 stig, rétt en náðu því ekki og Suðurnesjamenn fögnuðu sigri, 88-73.  

Jafnt var eftir fyrsta hluta keppninnar, 10-10 en Akureyringar náðu fimm stiga forystu eftir bjölluspurningarnar, 18-13. Lið Reykjanesbæjar náði eins stigs forystu eftir leikna hlutann og eftir flokkaspurningarnar var staðan aftur jöfn 58-58. Suðurnejsaliðið stóð sig svo betur á lokasprettinum og landaði sigri. Liðið mætir Reykjavík í undanúrslitum eftir hálfan mánuð en eftir viku eigast við lið Fljótsdalshéraðs og Garðabæjar, í hinni undanúrslitaviðureigninni. Lið Akureyrar var sem fyrr skipað þeim Erlingi Sigurðarsyni, Hildu Jönu Gísladóttur og Pálma Óskarssyni.

Nýjast