Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Dýrin í Hálsaskógi eftir Torbjörn Egner í Samkomuhúsinu á morgun, sunnudag. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir. Tónlistarstjóri er Sigurður Illugason og skipar hljómsveitina ásamt Kristjáni Halldórssyni og Adrienne Davis.
Alls koma 20 leikarar fram í sýningunni og með helstu hlutverk fara Jón Ásþór Sigurðsson sem leikur Mikka ref, Ófeigur Óskar Stefánsson fer með hlutverk Lilla klifurmúsar, Friðrik Marinó Ragnarsson er Marteinn skógarmús, Unnur Erlingsdóttir Hérastubbur bakari, Kristný Ósk Geirsdóttir bakaradrengur , Kolbrún Ada Gunnarsdóttir Bangsamamma og Kristján Önundarson er Bangsapabbi.
Undirritaður leit inn á æfingu í vikunni og treystir sér til að nánast lofa, líflegri og litríkri sýningu. Sviðið er stórkostlegt, enda hönnuð af meistaranum sjálfum, Sveinbirni Magnússyni, og þarna koma fram ungir leikarar sem þegar hafa töluverða reynslu að baki á sviðinu og eru ekki lengur bara efnilegir. Sem sé, sýning fyrir alla aldurshópa á þessu klassíska verki. JS