Sjúkrahúsið á Akureyri er þátttakandi í stóru samstarfsverkefni á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins sem heitir Recruitment and Retention of Health Care Providers and Public Service Sector Workers in Remote Rural Areas. Slík verkefni bjóða upp á möguleika á því að finna nýjar leiðir til að fást við sameiginleg viðfangsefni og uppgötva ný tækifæri. Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar og bráða-, fræðslu- og gæðasviðs Sjúkrahússins á Akureyri segir að megininntak verkefnisins felist fyrst og fremst í því að finna lausnir á viðvarandi vandamálum sem tengist því að ráða og halda í heilbrigðisstarfsfólk á strjálbýlum svæðum í norður Evrópu. Samstarfsaðilar koma frá Noregi, Svíþjóð, Kanada, Írlandi, Grænlandi og Skotlandi, en Skotar leiða verkefnið. Auk Sjúkrahússins á Akureyri taka þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.
Við munum m.a. leita svara við því af hverju heilbrigðisstarfsfólk er hikandi við þá tilhugsun að vinna í strjálbýli og hvað þarf til þess að það haldi áfram að vinna í strjálbýli. Einnig verður horft á hvaða þættir það eru sem veita heilbrigðisstarfsfólki ánægju af því að vinna í strjálbýli og þá m.t.t. fjölskyldu, skóla, afþreyingarmöguleika og fleira, segir Hildigunnur. Í upphafi verður upplýsinga aflað í gegnum viðamikla rafræna könnun í öllum löndunum þar sem heilbrigðisstarfsfólk/nemar í þéttbýli og dreifbýli verða beðnir um að svara.
Verkefnið er einnig stefnumótandi að sögn Hildigunnar, að því leyti að ef vel tekst til þá verður hægt að nýta væntanlegar niðurstöður fyrir aðra starfshópa en bara heilbrigðisstarfsmenn. Hildigunnur segir að ávinningur þessa verkefnis verði mikill þar sem verið sé að leita svara við því hvað þurfi til að halda fólki í starfi með tilliti til faglegra, félagslegra, umhverfis- og fjölskyldusjónarmiða. Einnig skapast með þátttöku góð alþjóðleg tengsl sem eru mikilvæg í verkefnum sem þessum, segir hún. Verkefnið er til þriggja ára, það hófst í júní 2011 og því lýkur í júní 2014. Vinnutilhögun hópsins er slík að hópurinn fundar saman tvisvar á ári, þess á milli starfa vinnuhópar. Einn slíkur stóð yfir í vikunni og sóttu hann um 30 erlendir gestir.