Leikur KA og Fjölnis fer fram á Þórsvelli

Næsti heimaleikur KA í 1. deild karla í knattspyrnu , sem verður gegn Fjölni nk. föstudag kl. 18.15, verður á Þórsvelli. Ástæðan er sú að ekki er unnt að hleypa leikmönnum og áhorfendum inn á Akureyrarvöll vegna þeirra framkvæmda sem þar eru í fullum gangi.

Vonir voru bundnar við að unnt yrði að spila leikinn við Fjölni á Akureyrarvelli, en undir lok síðustu viku var ljóst að það gæti ekki gengið eftir, enda væri það mikið eftir af framkvæmdunum bæði úti og inni að ógjörningur væri að hleypa fólki inn á svæðið, auk þess sem það myndi aldrei standast þær reglur sem gilda um leiki í 1. deild.

Því óskaði KA eftir heimild frá Íþróttafélaginu Þór um að spila umræddan leik við Fjölni á Þórsvelli og fékkst sú heimild í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Nýjast