Leikskólinn Naustatjörn opnar deild í Naustaskóla

Leikskólinn Naustatjörn opnaði fimmtu deildina sína í dag, á sex ára afmælisdegi leikskólans. Þetta er deild sem er aðeins með elstu börnum skólans, fædd 2004, og hún er staðsett í Naustaskóla. Fyrstu nemendur Naustaskóla eru því leikskólakrakkar sem verða grunnskólakrakkar eftir ár. Krakkarnir fluttu dótið sitt yfir í Naustaskóla upp úr hádegi í dag og ríkti mikil eftirvænting í hópnum.  

Börnin voru á deild sem heitir Búðargil en nýja deildin í Naustaskóla heitir Fífilbrekka. Þar hefur leikskólinn aðstöðu í tveimur minni stofum og einu stóru rými. Á leikskólanum Naustatjörn er verið að taka á móti um 60 nýjum börnum þessa dagana. Verið er að manna Búðargil að nýju, en alls fóru um 30 börn yfir í Fífilbrekku og þá er einnig verið að manna þau pláss sem losna, nú þegar elstu börnin hefja nám í grunnskóla.

Nýjast