Leikskólar lokaðir á sama tíma

Níu af ellefu leikskólum Akureyrarbæjar verða lokaðir á sama tíma í sumar, frá 14. júlí til 11. ágúst. Þetta eru leikskólarnir Pálmholt, Naustatjörn, Iðavöllur, Sunnuból, Kiðagil, Hulduheimar, Tröllaborgir, Hólmasól og Hlíðaból. Aðeins Lundarsel og Krógaból verða lokaðir á öðrum tíma í sumar eða frá 7. júlí til 1. ágúst.

Þetta er breyting frá því sem áður var þegar leikskólar lokuðu til skiptis fyrripart og seinnipart sumars en fyrirkomulagið í núverandi mynd var fyrst prófað í fyrra.

„Það var tekin ákvörðun um að hver og einn leikskóli myndi í samráði við foreldra ákveða sumarlokun og þannig efla sjálfstæði leikskólanna. Þá er hætta á að þeim verði lokað á svipuðum tíma eins og núna og við verðum að sjá hvað þetta hefur í för með sér,“ segir Gunnar Gíslason fræðslustjóri hjá Akureyrarbæ, spurður um hvort ekki sé óheppilegt hvernig sumarlokanir leikskólanna raðast.

„Eflaust kemur þetta einhverjum illa. Margir foreldrar eru skikkaðir í frí á ákveðnum tíma en svo eru aðrir sem ráða sér sjálfir. Það er erfitt að finna lausn sem allir eru sáttir við og eflaust er það ekki hægt nema að hafa leikskólana opna allt sumarið eins og var áður fyrr,“ segir Gunnar.

throstur@vikudagur.is

Nýjast