Leikskólar fara ekki allir í frí samtímis

Ákveðið hefur verið að leikskólar bæjarins munu ekki allir fara í sumarfrí á sama tíma nú í sumar. Þetta þýðir að eitthvert svigrúm á að vera fyrir foreldra til að flytja börn sín milli skóla ef sumarlokun passar þeim illa. Þetta kom fram á fundi skólanefndar í vikunni.

Ákveðið var að sumarlokanir leikskólanna yrði sem hér segir: Iðavöllur, Flúðir, Síðusel, Sunnuból, Naustatjörn og Hólmasól verða lokaðir 9.- 20. júlí og leikskólarnir Lundarsel, Pálmholt, Holtakot, Kiðagil, Krógaból og Tröllaborgir lokaðir 23. júlí - 3. ágúst. Þá verður leikskólinn Smábær í Hrísey lokaður 23. júlí - 17. ágúst og leikskólinn Hlíðarból 16. júlí - 3. ágúst. Haft var samráð við leikskólastjóra um þetta fyrirkomulag.

Þá hefur verið samþykkt tilhögun um starfsdaga leikskólakennara. Fyrirkomulagið verður þannig að starfsmannafundir verða haldnir eftir hádegi fjórum sinnum á ári. Skólanefnd hefur ákveðið að hluti af þeim tíma sem ætlaður er í starfsmannafundi í leikskólum verði fjóra seinniparta á dagvinnutíma og því verði leikskólunum lokað frá kl. 12.15 þessa fjóra daga. Þetta er m.a. gert til þess að nýta þann tíma betur sem ætlaður er til að sinna faglegum undirbúningi starfsins og auka svigrúm leikskólanna til endurmenntunar starfsmanna. Á fundi skólanefndar fyrr í vikunni var leikskólafulltrúa og fræðslustjóra falið að samræma starfsdaga leikskóla og grunnskóla sem mest.

Loks liggur nú fyrir nú ákvörðun um opnunartíma leikskóla frá og með 1. ágúst næstkomandi. Opnunartíminn verður frá kl 7.45 frá og með 1. ágúst og frá og með 1. mars verða Síðusel, Holtakot, Iðavöllur, Kiðagil og Tröllaborgir opnaðir kl. 7.45, að höfðu samráði við foreldra. Þá mun lokunartími ráðast af því hver þörfin verður í hverjum og einum leikskóla, en þá er gert ráð fyrir því að a.m.k. 6 börn þurfi að óska eftir vist eftir kl. 17.00 svo opnunartími lengist til kl. 17.15. Frá 1. mars verða Síðusel, Holtakot og Pálmholt lokaðir frá kl. 17.00, að höfðu samráði við foreldra.

Nýjast