Leikskólapláss fyrir öll börn sem náð hafa 12 mánaða aldri

Nýjar leikskóladeildir hafa verið opnaðar við Síðuskóla og Oddeyrarskóla   Mynd  akureyri.is
Nýjar leikskóladeildir hafa verið opnaðar við Síðuskóla og Oddeyrarskóla Mynd akureyri.is

 Öll börn sem náð hafa 12 mánaða aldri á Akureyri eru komin með leikskólapláss. Sá áfangi náðist með því að opna tvær nýjar leikskóladeildir í tveimur grunnskólum í bænum, Síðuskóla og Oddeyrarskóla. Næstu skref í uppbyggingu leikskóla í bænum er bygging nýs leikskóla í Hagahverfi.

Um næstu áramót tekur í gildi ný gjaldskrá sem felur m.a. í sér gjaldfrjálsan sex tíma leikskóla með tekjutengingu á það sem umfram er. Tíminn frá kl. 8 til 14 verður gjaldfrjáls auk þess sem gjald fyrir alla dagvistun innan átta tíma lækkar.

Áfram verður greitt fyrir fæði í skólunum með sama hætti og verið hefur. Gjaldskráin verður tekjutengd fyrir bæði einstaklinga og sambúðarfólk til hagsbóta fyrir tekjulægri hópa sem þýðir að við útreikning leikskólagjalda verður horft til tekna og hjúskaparstöðu að því er fram kemur á vef Akureyrarbæjar.

Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og verður staðan metin að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnisins.

Þau afsláttarkjör sem gilt hafa fyrir einstæða foreldra, námsmenn, atvinnulausa og öryrkja, gilda áfram sem og systkinaafsláttur. Einnig verða áfram í gildi heimgreiðslur fyrir fólk sem ekki nýtir sér þjónustu leikskóla sem mun gagnast mörgum fjölskyldum og um leið skapa meira rými í leikskólum bæjarins. 

Enn eru þrír mánuðir eftir í undirbúningsvinnu hjá Akureyrarbæ áður en ný gjaldskrá tekur gildi og verður á þeim tíma meðal annars haft samráð við Jafnréttisstofu, fulltrúa foreldra, leikskólastjórana aftur og Félag leikskólakennara.


Athugasemdir

Nýjast