"Það er spennandi að vera með þessu unga fólki og líka gott fyrir gamlan skarf. Við höfum æft í um sjö vikur og æfingar hafa gengið mjög vel," segir Þráinn en flestir leikarnir í sýningunni eru í fleiru en einu hlutverki. "Lilja er 16 ára stúlka sem býr í gömlu Sovétríkjunum. Móðir hennar yfirgefur hana og flytur til Bandaríkjanna. Lilja býr til sitt eigið heimili með vinkonu sinni Natösju og 12 ára gömlum dreng, Volodja. Á meðan hún sér fyrir heimilinu með vændi dreymir þau öll um betra líf í "Vestrinu". Er draumalífið fegurðin ein, eða er draumurinn helvíti á jörð? Þetta er saga um börn, fátækt, vændi, ást og svik. Þetta er átakanleg saga um gamaldags þrældóm í nútímasamfélagi," segir m.a. í kynningu.
Leikararar í sýningunni eru; Hjalti Rúnar Jónsson, Atli Þór Albertsson, Jana María Guðmundsdóttir, María Þórðardóttir, Ólafur Ingi Sigurðsson og Þráinn Karlsson. Um leikmynd sjá; Dýri Bjarnar Hreiðarsson, Bjarki Árnason og Sunna Björk Hreiðarsdóttir, um lýsingu, Freyr Vilhjálmsson, um búninga, Rannveig Eva Karlsdóttir og hljóðmynd, Gunnar Sigurbjörnsson. Jón Gunnar vann leikritið meðan hann var við nám í Drama Centre í London. Lilja var frumsýnd í The Contact Theatre í Manchester 2008 í leikstjórn Jóns Gunnars. Sýningin fékk mjög góða gagnrýni og m.a. 5 stjörnur í Manchester Evening News.
Aðspurður um veturinn framundan, sagði Þráinn að hann leggist vel í sig. Hann gerir jafnframt ráð fyrir því að taka þátt í aðventusýningu LA í desember en æfingar hefjast í næstu viku. "Það er spennandi leikár framundan og því verður ekki á móti mælt að hlutirnir hafa gengið vel hjá félaginu síðustu ár. Það er alveg stórkostlegt að hafa Rýmið, þetta litla rými, á móti Samkomuhúsinu og það gefur aukna möguleika," sagði Þráinn.